131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norrænt samstarf 2004.

550. mál
[15:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Drífu Hjartardóttur fyrir yfirferð á hinni ágætu skýrslu um norrænt samstarf og störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Eins og fram kom í máli hennar á ég sæti í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem er reyndar farinn úr þeirri nefnd nú og ég er eini íslenski þingmaðurinn sem á sæti í henni í dag.

Mig langar að nefna nokkur atriði í sambandi við starf nefndarinnar. Reyndar kom ég inn á þau í umræðunni um skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda fyrr í dag en ætla að nefna helstu áhersluatriðin í vinnu nefndarinnar á starfsárinu. Allmikil áhersla var lögð á orkumál og í framhaldi af þeirri vinnu var haldin þríhliða orkumálaráðstefna í Ósló í samvinnu við Eystrasaltsþingið og Beneluxþingið þar sem farið var yfir raforkumálin og þær breytingar sem orðið hafa á raforkumarkaði í Evrópu undanfarið í kjölfar tilskipunar Evrópusambandsins og því að búið er að koma á samkeppni í þeim efnum.

Einnig hefur nefndin fjallað nokkuð um vistvænar landbúnaðarvörur á Norðurlöndum og í framhaldi af þeirri vinnu stendur til að við hittum danska fæðumálaráðherrann, þ.e. þann sem sér um matvæli, á næstunni til að ræða áherslur nefndarinnar í þeim efnum. Ég er í þriggja manna nefnd sem mun hitta hann til að upplýsa hann og fá svör við ýmsum atriðum sem koma inn í þá vinnu.

Á ráðstefnunni um orkumálin var innlegg um vetnismálin hér á landi sem hv. þm. Hjálmar Árnason sá um. Hann kynnti vetnismálin á Íslandi, gerði það skemmtilega og vakti það miklar umræður á ráðstefnunni.

Á septemberfundunum var málstofa á vegum umhverfisnefndar um meðhöndlun og flutning kjarnorkuúrgangs. Nefndin ætlar að skoða þau mál nánar í sumar þar sem til stendur að kynna sér geymslu kjarnorkuúrgangs í Svíþjóð, í Oskarshavn, þar sem þeir hyggjast grafa kjarnorkuúrgang djúpt í jörðu. Eins og fram kemur í skýrslunni og kom fram á málstofunni í september fellur til verulega mikill kjarnorkuúrgangur bæði í Svíþjóð og Noregi og er talið að hann verði um 10 þús. tonn á næstu 5 árum, sem er verulega mikið.

Menn hafa haft áhyggjur af því hvernig flytja eigi kjarnorkuúrganginn um Evrópu og Rússland og aðaláhyggjuefnið hefur verið að finna farartæki sem eru nógu örugg til að flytja úrganginn því það er ekki að spyrja að leikslokum ef eitthvert óhapp henti í slíkum flutningum á þeim svæðum sem þau fara um sem eru oft mjög mikilvæg fiskimið. En það hefur verið baráttumál m.a. Bellona-umhverfisverndarsamtakanna í Noregi að banna slíkan flutning.

Bellona-samtökin hafa einnig barist mjög ötullega fyrir því að hætt verði að setja kjarnorkuúrgang frá Sellafield í hafið. Á síðasta ári var haldin ráðstefna í Bretlandi um þá baráttu alla og árangur hennar og í kjölfar hennar komu upplýsingar frá breskum yfirvöldum um að þau hafi fundið leið til að hætta að menga hafið með kjarnorkuúrgangi frá Sellafield-kjarnorkuverinu í Bretlandi. Það var því mjög ánægjulegt að barátta Bellona-samtakanna og fleiri auðvitað skilaði þeim góða árangri.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur voru áherslur Íslendinga á Vestur-Norðurlöndin og þess vegna fór umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs til Grænlands sl. sumar og hélt þar sumarfund sinn. Þar kom einmitt fram hversu ótrúlega mikil áhrif hlýnandi loftslag hefur á Norður-Grænland, lífshætti þar og dýralíf og m.a. var það verulegt áhyggjuefni Grænlendinga að á hinum norðlægu slóðum, þar sem er mjög mikið af litlum þorpum þar sem frumbyggjar eða Inúítar búa, hefur ís ekki fest á firði en þeir hafa byggt afkomu sína t.d. á veiðum í gegnum ís á vetrum. Þetta hefur haft veruleg áhrif á lífsafkomu Grænlendinga í Norður-Grænlandi. Sama á við um ýmsar dýrategundir við Grænland, t.d. hvali, ísbirni og fleiri dýrategundir. Hlýnandi loftslag hefur raskað lífsháttum dýrategunda á þessum slóðum og sömuleiðis hvernig jökullinn hefur hopað verulega og ótrúlega mikið á stuttum tíma. Umhverfisnefnd Norðurlandaráðs átti fund með umhverfisnefnd grænlenska þingsins um þessi mál þar sem áhyggjur þingmanna þar komu fram.

Mig langar aðeins að nefna umræðuna um sjálfbæra þróun. Ég sótti tvo fundi fyrir umhverfisnefnd um það mál, annan í Svíþjóð og hinn í Danmörku. Sömuleiðis var mjög athyglisvert að ég sat fund NAMMCO sem fram fór í Færeyjum þar sem fram kom að það er mjög slæm staða í selastofninum við Ísland og í framhaldi af því var nokkur umræða um þau mál í þinginu vegna upplýsinga frá ársfundi NAMMCO.

Það hefur verið vinna í gangi varðandi strandveiðar á Norðurlöndunum og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sat fund í nefndinni sem varamaður og hefur unnið að undirbúningi ráðstefnu um strandveiðar á Norðurlöndunum, en hún situr nú jafnréttisfund erlendis svo hún er ekki viðstödd til að segja okkur aðeins frá þessu en ráðstefnan um strandveiðarnar mun verða haldin í maí.

Ég kom aðeins inn á vinnu sem fram fer hjá Evrópusambandinu fyrr í dag um eiturefni í umhverfinu sem nefnist REACH. Ég spurði hæstv. iðnaðarráðherra um aðkomu okkar að þeirri vinnu en verið er að undirbúa löggjöf um að skrá eiturefnin sem eru í hinum ýmsu vörum og matvælum sem við notum jafnvel dags daglega og okkur stendur heilsufarsleg ógn af. Á janúarfundi Norðurlandaráðs kom fram hvatning til þinganna á Norðurlöndum og Norðurlandaþjóðanna að leggja okkar af mörkum til að fá sem flest af eiturefnunum skráð hjá Evrópusambandinu því auðvitað kemur þetta í löggjöf okkar síðar. Það voru engin svör frá hæstv. iðnaðarráðherra um það en ég mun auðvitað kalla eftir þeim síðar og vonast til þess að við munum láta til okkar taka við undirbúning löggjafarinnar hjá Evrópusambandinu um eiturefnin.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hef aðeins hlaupið á þeim málum sem eru í skýrslunni og snúa að umhverfis- og náttúruauðlindanefndinni og læt hið ritaða mál duga sem fram kemur í þessari ágætu skýrslu um störf Íslandsdeildarinnar á starfsárinu.