132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:42]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil koma hér upp og ítreka þá ósk mína að iðnaðarnefnd verði kölluð saman. Þetta geri ég vegna þess að þau tvö atriði sem ég nefndi í athugasemd minni áðan, þ.e. að búið sé að ná samkomulagi um lögleiðingu og innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins, milli Noregs, Íslands og Liechtensteins. Það atriði finnst mér skipta miklu máli, og ég sem þingmaður og aðili að nefndinni óska eftir því og ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að verða við því, í ljósi þess að þessir samningar og þetta samkomulag hafi náðst, að fá að fara yfir það mál áður en umræðan heldur áfram. Þetta er ekki ósanngjörn krafa vegna þess að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, þessar tvær meginstofnanir á sviði umhverfis- og náttúruverndar í landi okkar, nefndu báðar í umsögnum sínum að mikilvægt væri að frumvarp um lögleiðingu vatnatilskipunarinnar verði lagt fram á sama tíma og frumvarp til vatnalaga.

Hæstv. umhverfisráðherra kemur hér upp í dag og heldur því fram að þessi mál skarist ekki en, virðulegi forseti, það hlýtur að vera að löggjafinn eigi að fá að skera úr um það sjálfur, ekki láta segja sér það af hæstv. umhverfisráðherra, sem er hluti af framkvæmdarvaldinu, úr þessum stól í einni setningu, heldur er það krafa okkar að fá að leggjast yfir það mál sjálf. Það er skylda löggjafans að gera það.

Ég skil ekki hvers vegna við megum ekki, hvaða meinbugir eru á því að nefndin fái, í ljósi þess að höfundur frumvarpsins hefur lýst nýrri skoðun sem skiptir máli fyrir þetta mál, að setjast niður með honum, þótt ekki væri nema í klukkustund til að fara yfir málið.

Mér finnst þingið setja verulega niður vegna þessara vinnubragða. Mér finnst þetta þinginu verulega til vansa og ekki skapa þá traustu ásýnd sem hér á að vera. Vinnubrögð hér eiga að vera góð. Hér á ekki að hraða málum þannig í gegn að þingmenn fái ekki tækifæri — og það er þess vegna sem við biðjum um þetta — við viljum fá tækifæri til að skoða þessi mál sjálf, ekki láta segja okkur það hér af ráðherrum að hlutirnir skarist ekki.