132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það skýrðist ýmislegt fyrir mér í umræðum áðan þegar greint var frá því að sjálfstæðismenn hefðu lagst mjög hart gegn stofnun umhverfisráðuneytisins og að þá hefðu mjög langar ræður verið haldnar. Var mjög nefnt að einn þingmaður hefði meira að segja talað í yfir 10 tíma, ef það er rétt, gegn stofnun umhverfisráðuneytisins. Og nú hafa þá þessir tveir flokkar náð saman, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, gegn umhverfinu.

Ég velti fyrir mér, frú forseti: Eru sjálfstæðismenn áfram á móti umhverfisráðuneytinu? Þeir voru það þegar það var stofnað og mér virðast þeir vera það enn. Það hefði a.m.k. verið eðlilegt, ef þeir hefðu staðið með umhverfisráðuneytinu og staðið með umhverfisráðherranum, að þá fengjum við fyrst fram hér lög um vatnsvernd áður en Framsóknarflokkurinn, iðnaðarráðherrann, fengi að koma fram með frumvarp um einkavæðinguna á vatninu. Í stað þess situr Sjálfstæðisflokkurinn með Framsóknarflokknum á umhverfisráðuneytinu og bannar, að því er virðist, umhverfisráðherra að koma fram með frumvarp til laga um vatnsvernd. Þeir hafa alltaf verið á móti umhverfisráðuneytinu. Mér fannst þetta mjög athyglisvert og spyr hvort svo sé enn.

Einnig fyndist mér mjög fróðlegt ef forseti upplýsti okkur í þessari umræðu um hvernig Ísland hefur hugsað sér að verða þátttakandi í áskorun Sameinuðu þjóðanna um að árin 2005–2015 verði yfirlýstur áratugurinn fyrir „Action: Water for Life“ eins og stendur í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, „Vatn til lífsins“. Hvaða afstöðu hefur þingið hér til vatnsins, forseti sem ber ábyrgð á því gagnvart m.a. Sameinuðu þjóðunum? Hvaða afstöðu höfum við gefið til þessarar yfirlýsingar frá Sameinuðu þjóðunum? Jú, í reynd að ganga þvert gegn yfirlýsingu og áskorun Sameinuðu þjóðanna með því að flytja hér frumvarp um einkavæðingu á vatni sem gengur þvert gegn áskorun Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil því spyrja forseta þingsins hér og krefst þess að þingið verði upplýst um það hvort þetta sé hið eina svar sem íslenska þjóðin á, í gegnum íslenska þingið, gegnum yfirgang meiri hluta hér á Alþingi, að gefa Sameinuðu þjóðunum við áskorun um að næsti áratugur verði áratugur vatnsins, þ.e. að einkavæða vatnið. Er það eina svarið sem hefur verið sent? Ég mótmæli því, ég krefst þess að við stöndum með Sameinuðu þjóðunum um (Forseti hringir.) kröfuna „vatn fyrir alla“ en ekki bara fyrir suma (Forseti hringir.) eins og hér er lagt til af ráðherrum (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins.