133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:30]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Menn mega ekki skilja mig þannig að ég víkist undan ábyrgð í þessari umræðu og ég vorkenni okkur ekkert að þurfa að sitja undir ræðum hv. þingmanna í stjórnarandstöðunni, svo er ekki. Það eflir okkur og styrkir enn frekar að standast þau áhlaup.

Ég benti á, og ég leiðrétti mig þá hvað varðar ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, ef ég hef misst af því, að við þurfum öll sem að málinu höfum komið að bera okkar pólitísku ábyrgð. Það teljum við okkur hafa gert og það hefur klárlega komið fram. Mér hefur fundist sem verið sé að snúa út úr orðum manna hér í dag.

Aðalatriðið er að um ranga ákvörðun eða mistök var að ræða. Við höfum borið þá pólitísku ábyrgð og munum gera það áfram. Nú horfum við fram á veginn, við lærum af mistökunum og sjáum til þess að þau endurtaki sig ekki.