133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:54]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umræðu en geri það sökum þeirrar eindregnu áskorunar sem hæstv. starfandi utanríkisráðherra beindi til mín. Það er greinilegt að hún telur það eftirsóknarvert eins og hugsanlega aðrir sem hér eru staddir og tilheyra kaffibandalaginu — sem er allt annað en Atlantshafsbandalagið, svo það komi skýrt fram. Ég veit ekki hvort þeir verða jafnglaðir yfir því en ég vona að það verði ekki til þess að splundra því bandalagi. En ég vil taka skýrt fram að afstaða mín til Atlantshafsbandalagsins og samstarfs innan þess hefur breyst mjög í áranna rás. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að sú var tíðin að ég skundaði skeiðið á milli Keflavíkur og Reykjavíkur í fylgd þessara herramanna sem sitja í salnum og mótmælti mjög veru erlends herliðs í Keflavík.

Nú má segja að tíminn hafi flutt mig um set og þó ég í andanum tilheyri VG að vissu leyti í þessu máli er ég þó nær þeim armi VG sem nú um stundir fer með ríkisstjórn Noregs ásamt okkur samfylkingarmönnum þar í landi. Ég tek eftir því að hv. þingmenn VG, sem hafa verið hér í salnum, hafa oft með mjög góðum árangri sótt pólitískan og jafnvel andlegan efnivið til hins ágæta samstarfs sem þeir eiga með félögum sínum á Norðurlöndunum.

En það er sjálfsagt að ég útskýri hvað ég á við með þessum orðum, herra forseti. Það er t.d. þannig að ríkisstjórn Noregs hefur, eins og ríkisstjórn Íslands, lið í Afganistan sem hún telur að hún hafi sent þangað til að styðja uppbyggingu og stilla til friðar. Munurinn á þeirri þátttöku sem er af hálfu ríkisstjórnar Noregs — þar sem við félagarnir eigum aðild að ríkisstjórn, báðir þessir flokkar, VG og Samfylkingin — og ríkisstjórnar Íslands er sá að enginn vafi leikur á því að norska ríkisstjórnin hefur herlið í landinu. Á sínum tíma samþykktu norsk stjórnvöld meira að segja að senda þriðjung flugflota síns til Afganistans. Við vorum illu heilli mjög samhliða þeim þegar við höfðum það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallar jeppagengið. Sú för varð ekki til frægðar. Þvert á móti. Ég hef lýst afstöðu minni til þess nýlega í umræðum á Alþingi um frumvarp hæstv. utanríkisráðherra um friðargæslu.

Ég vil aftur á móti taka undir með hæstv. starfandi utanríkisráðherra að því leyti að mér finnst annar bragur á þátttöku okkar nú en áður. Svipað viðhorf fannst mér koma fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem sagði að sér hugnaðist meira að senda ljósmæður til Afganistans heldur en brynvarða jeppa.

Ég segi það enn og aftur að ég hef átt erfitt með að sættast við íslensku friðargæsluna eftir atvikið í Chicken Street í Kabúl sem leiddi til þess að tólf ára gömul afgönsk stúlka lét lífið og amerísk blaðakona lést af sárum sínum. Þarf ekki að rifja þær kringumstæður upp þó að það hafi aldrei verið rætt til hlítar eða fullnustu á hinu háa Alþingi. Það var nú einfaldlega þannig að atburðarásin varð vegna þess að íslenska friðargæslan fór ekki að settum reglum. Það sem olli misklíð minni við íslensku friðargæsluna vegna þessa atviks var að þegar hinir hugumstóru íslensku friðargæsluliðar komu heim — og eftir lágu þessar tvær í valnum — voru þeir í bolum, sem þeir glenntu framan í fjölmiðla, sem á stóð Shit happens. Það eitt hefði nægt til þess að ég hefði á þeirri stundu hafnað allri þátttöku Íslands í friðargæslu af þessum toga.

Hæstv. utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagði á dögunum: „Við höfum lært af reynslunni.“ Ég spurði hana út í hvað hún ætti við með þeim orðum og hún sagði að hún vildi sveigja friðargæslu Íslendinga til þátttöku í störfum af þeim toga sem ég hef reifað og einnig hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

En nú er það svo þegar kemur að SOFA-samningnum, sem svo er kallaður, að hann er mjög flókinn og alþjóðlegur og tekur yfir mjög flókið gangvirki réttarreglna sem ná yfir þau lönd sem taka þátt í hvers konar starfsemi á vegum Atlantshafsbandalagsins. Það má segja að hann sé í reynd grundvöllur þess að hægt sé að taka þátt í slíku samstarfi. Þetta er grundvallarsamningur að því leytinu til. Að því marki má segja að norska ríkisstjórnin sé miklu knúnari en við til að vera aðili að honum vegna þess að hún hefur beinlínis menn undir vopnum í Afganistan. Það er síðan eftirtektarvert að ástæðan fyrir því að við staðfestum aldrei SOFA-samninginn var sú, muni ég rétt, að ákveðið var að allir hermenn, eða þeir sem tækju þátt í heræfingum frá erlendum þjóðum, hefðu sömu réttarstöðu hér á landi og amerískir hermenn höfðu í krafti tvíhliða samningsins frá 1951. Ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra leggur þetta fyrir núna er sú að ameríska herliðið er farið úr landi. Menn telja þar af leiðandi að ekki sé hægt að draga þessa samhverfu millum hermanna af öðru þjóðerni en amerísku vegna þess að þeir séu ekki hér með varanlegan samning.

En þá kemur að þeim mun sem íslensk stjórnvöld hafa, að því er ég hef alltaf talið, haft gagnvart skilgreiningum á íslensku friðargæslunni annars vegar og liðinu sem kemur hingað eða tekur þátt í samstarfsverkefnum innan Atlantshafsbandalagsins hins vegar. Í okkar tilviki hafði ég alltaf talið að verið væri að tala um menn sem væru að sinna friðargæslu og væru ekki her. Í hinu tilvikinu er um að ræða menn sem ekki er hægt að skilgreina öðruvísi en sem herlið. Þegar við gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu 1959, og þegar við gerðum tvíhliða samninginn 1951, var talið að í krafti þess að Ísland væri herlaust land yrði aldrei þörf á því að við sem vopnlaus þjóð mundum senda herlið til annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Það var þess vegna sem við þurftum ekki að ávinna okkur þau réttindi sem felast í SOFA-samningnum með því að staðfesta hann.

Staðfesting þessa samnings, og það eru mínar athugasemdir við hann, felur í reynd í sér þá stefnubreytingu að við erum að lýsa því yfir að við séum formlega að hverfa frá vopnleysi okkar sem þjóð. Það er skilningur minn á því. Ekki ætlaði ég að efna til langrar umræðu um þetta atriði, ég hafði ætlað að spyrjast fyrir um það þegar málið kemur til nefndar.

Ég vil svo líka segja, og þá tala ég sem borgari og fulltrúi þjóðar sem hefur skilgreint sig sem vopnlausa, að ég hef margar efasemdir um ýmsar reglur sem er að finna í þessum samningi. Ég skil það mætavel að þær eigi við þjóðir sem senda mannskap undir vopnum, mannskap sem hefur hlotið þjálfun við vopnaburð og er sendur á átakasvæði þar sem menn þurfa hugsanlega að verja hendur sínar með vopnum. En aldrei var til þess ætlast af íslensku friðargæslunni. Ekki var um það rætt þegar til hennar var stofnað. Það var að vísu svo, herra forseti, það var ekki gert með lögum, heldur þróaðist hún meira og minna undir handarjaðri tiltekinna utanríkisráðherra Framsóknarflokksins, sjáið þið til.

Því má fagna stefnubreytingunni varðandi skilning og skilgreiningar hæstv. núverandi utanríkisráðherra og sá sem starfar í hennar nafni í dag virðist sömu skoðunar. Ég er mjög hlynntur þeirri tegund mannúðlegrar friðargæslu. Ég tel að friðargæsla okkar eigi að helgast af öðrum markmiðum en annarra vegna þess að við höfum skilgreint okkur sem vopnlausa þjóð.

Umræddur samningur helgast að töluverðu leyti af því að verið er að verja rétt manna sem hafa hlotið þjálfun í því að bera vopn og beita þeim. Það hefur íslenska þjóðin ekki gert. Mér finnst það ábyrgðarhluti af íslenskum stjórnvöldum að senda menn til starfa í herdeildum á átakasvæðum þar sem þeir jafnvel hafa skyldu til þess að bera vopn, jafnvel þó þau séu ekki virk, eins og áður hefur komið fram í umræðum. Ekki síst þegar horft er til þess að þeir hafa ákaflega litla þjálfun fengið í því að beita slíkum vopnum. Þeir eru sendir á einhver námskeið í Noregi.

Það er akkúrat þess vegna sem sérstakt ákvæði um refsilögsögu er í frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna og sömuleiðis ákvæði um að dómstólar á Íslandi, sem hafa refsilögsögu yfir þessum mönnum jafnvel þó þeir starfi í fjarlægu landi, taki tillit til þess, ef viðkomandi starfsmaður íslensku friðargæslunnar brýtur ákvæði hegningarlaganna, að hann sé ekki vanur að starfa við slíkar aðstæður og geti þess vegna brugðist við með hætti að það geti bakað öðrum miska. Það sem væri hegningarlagabrot hér á landi er ekki hegningarlagabrot við slíkar aðstæður.

Með þessu tel ég að íslensk stjórnvöld viðurkenni í verki að munur er á okkar mönnum hvað þjálfun og undirbúning varðar og herliði annarra. Gott og vel, um það má ræða. En þetta er a.m.k. staðfesting á því viðhorfi mínu að Íslendingar hafa ekki vopnahefðina og hafa ekki vopnaþjálfunina og íslensk stjórnvöld taka tillit til þess með umræddum hætti í frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna.

Herra forseti. Þó að ég sé reiðubúinn að hlusta á öll rök í málinu geri ég fyrst og fremst athugasemdir við þetta: Með því að samþykkja og staðfesta SOFA-samninginn, sem ég geri mér ljóst að er burðargrind í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins, erum við að breyta skilgreiningu á okkur sem þjóð. Með staðfestingunni á honum skilgreinum við okkur sem vopnvædda þjóð. Það er algjört fráhvarf frá því sem áður var. Er sjálfsagt að rifja það upp að þegar Ísland var eins árs lýðveldi árið 1945 var því hafnað á hinu háa Alþingi að lýsa yfir stríði á hendur Japönum og Þjóðverjum vegna þess að Íslendingar væru vopnlaus þjóð. Það er reyndar rétt að rifja það upp líka að menn í öllum flokkum árið 1949, meira að segja þáverandi utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, sem lagði grundvöllinn að utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins allt fram til okkar daga, lýstu því yfir að Íslendingar mundu aldrei, þrátt fyrir stofnaðild sína að Atlantshafsbandalaginu, fara með vopnum á hendur annarri þjóð.

Sú afstaða hans og sú afstaða sem Alþingi tók árið 1945 var grundvöllurinn að skilgreiningu og sjálfsmynd okkar sem vopnlausrar þjóðar og hún var ástæðan fyrir því að við höfum ekki staðfest SOFA-samninginn. Núna erum við að staðfesta hann og í því felst stefnubreyting. Íslensk stjórnvöld eru í reynd farin að líta á okkur sem vopnaða þjóð og á friðargæsluliða okkar sem hluta af her þó hann sé ekki undir íslenskri stjórn. Það er breytingin. Það er það sem ég hef fram að færa um þetta. En ég ætla ekki að lengja þetta heldur taka málið upp í utanríkismálanefnd.