133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[21:10]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að ár sakleysis okkar sem þjóðar séu liðin. En við höfum aldrei gert það upp við okkur. Við höfum alltaf talið okkur trú um að við værum vopnlaus þjóð. Hér væri ekki lögregla undir vopnum, hér væri ekkert herlið undir vopnum og ekkert gæslulið undir vopnum.

Við sem stundum þurfum að fara til útlanda, og stundum nokkuð oft í krafti starfa okkar, höfum orðið fyrir því að ganga í gegnum hópa af íslenskum lögreglumönnum með alvæpni við tilteknar aðstæður á Keflavíkurflugvelli, mönnum vopnuðum vélbyssum. Ég hef séð það. Fleiri hafa séð það. Þetta er breyting sem hvergi hefur verið rædd og maður veltir fyrir sér hver lagastoðin sé. Hún var til skamms tíma til í einni aukasetningu í lögreglulögunum, muni ég rétt. Nú kann að vera að búið sé að samþykkja breytingu á því. Mér er ekki kunnugt um það.

Hið sama á við um friðargæsluna. Það voru engin lög um hana. Hún bara varð til. Hún spratt upp. Og allt í einu var til orðið verkefni sem aldrei hafði verið kynnt þinginu með nokkrum hætti en menn töldu að um borgaraleg mannúðarstörf væri að ræða. Annað kom í ljós. Það getur verið að þetta sé oftúlkun hjá mér. En þetta er a.m.k. þess virði að ræða.

Varðandi það hvort um breytingu sé að ræða þá dreg ég einungis ályktanir af skilgreiningum. Mig langar að leggja eina spurningu fyrir hæstv. utanríkisráðherra. Ég les fyrst eftirfarandi texta: „Var talið að Ísland sem vopnlaus þjóð mundi aldrei senda herlið til annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.“ Og síðan kemur þetta: „Á þessum tíma var því ekki talin þörf á því að Ísland fullgilti SOFA-samninginn.“ Ég spyr: Hvar stendur þessi texti? Þetta stendur nú í greinargerðinni sem starfsmenn hæstv. ráðherra hafa skrifað.

Með öðrum orðum er sagt að að dómi stjórnvalda þurfum við ekki að staðfesta SOFA-samninginn þar sem við lítum ekki á okkur sem vopnaða þjóð. Nú erum við að staðfesta þann samning og af því má gagnálykta að við séum farin að líta (Forseti hringir.) á okkur sem þjóð undir vopnum.