133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil í framhaldi af þessu hefja ræðu mína á því að mér hefur ekki enn þá tekist að skilja það sem hæstv. umhverfisráðherra er að reyna að útskýra. Í fyrsta lagi er það nú þannig að í minni reikningsbók eru 10,5 millj. ekki það sama og 10 milljónir 485 þús. Þó muni litlu á þessum tölum á kvarðanum svona við fyrstu sýn, þó að ég geri ráð fyrir að með þeim gæti tekist að kæfa okkur til heljar og kannski heim aftur, þá ætlast maður til að viðhafðar séu nákvæmar tölur í greinargerðinni.

Það sem ég skil ekki enn þá eru þessi 785.000 tonn og hvaðan þau koma. Og hvaðan koma þessi 1.700 tonn? Ef þetta er skýrt einhvers staðar bendir hæstv. umhverfisráðherra mér kannski á það á eftir en ég hef ekki fengið botn í það enn þá hvernig þessi tala er tilkomin.

Í öðru lagi verð ég að viðurkenna vankunnáttu mína. Ég sé ekki í frumvarpinu að viðskipti með kvóta úr almennu heimildinni séu bönnuð. Ég hef kannski ekki lesið þetta nógu vel. Ég verð að viðurkenna að fyrra hluta frumvarpsins las ég illa eða ekki vegna þess að í honum taldi ég felast lög sem voru samþykkt í fyrra og kemur það fram í greinargerðinni.

En það kann að vera að mér hafi skotist yfir þetta bann hér í lögunum og ég vænti þess þá að hæstv. umhverfisráðherra leiðrétti mig í því og bendi mér á hinn rétta stað í því efni. Vegna þess að þetta skiptir ákveðnu máli sem ég kannski kem að á eftir.

Forseti. Í 1. gr. frumvarpsins segir:

„Markmið laganna er að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.“

Kannski ætti þarna að standa að vissulega sé markmið frumvarpsins að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. En þá kynni að vanta viðauka sem gæti t.d. verið svona: Að markmið laganna sé að skapa þau skilyrði án þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, án þess að beita mengunarbótareglunni eða mengunargreiðslureglunni um að þeir borgi sem menga, án þess að búa til úthlutunarreglur um hverjir eiga að njóta þessara takmörkuðu kvóta, skulum við kalla það, því gæði er nú erfitt að kalla það að minnsta kosti á íslensku, nema þær reglur sem eiga við um hvert annað kapphlaup, án þess að reyna að skapa markað úr þessum takmörkuðu kvótum sem eru fyrir hendi og búa þannig til hagræna hvata til að minnka losun hjá þeim fyrirtækjum sem hafa heimild til hennar, og án þess að þurfa að móta stefnu núna rétt fyrir kosningar um framhaldið sem einmitt þessa mánuði, eins og hæstv. umhverfisráðherra gat um, er verið að hefja viðræður um eftir að fyrsta Kyoto-tímabilinu lýkur í árslok 2012. Vegna þess að slík stefna kemur hvorki fram í þessu frumvarpi og hún kemur heldur ekki fram í þeirri svokölluðu stefnumörkun til langtíma sem umhverfisráðherra ræddi hér um áðan. En þar er verið að lofa fram um áratugi án þess að neinar skýringar fáist á því eða leiðbeiningar hvernig þetta eigi að gera. Í rauninni er það plagg meira og minna innantómt hvað varðar pólitískt gildi þó þar megi vissulega sækja sér þarfar upplýsingar frá rannsóknastofnunum og öðrum fróðleiksuppsprettum hér innan lands og utan.

Hér er satt að segja allt í sama dúr. Með þessu á fyrst og fremst að skapa tækifæri fyrir öll þau álver sem nú eru í ráðagerðum og með frumvarpinu á að sjá til þess að Kyoto-samkomulagið og ákvæðið frá Marrakesh sem mætti kalla hið íslensk-mónakóska, eða stóriðjuákvæðið, 14/CP.7, sé ekki hindrun í því efni. Enda hefur hæstv. umhverfisráðherra orðið fræg fyrir þau ummæli sín og þá pólitísku speki í umræðunni sem nú hefur geisað um stóriðju, álver og loftslagsmál, að álver á Íslandi séu ekki hluti af vandamálinu heldur hluti af lausninni. Það kynni að vera það sem stendur eftir umhverfisráðherra þegar við erum öll hætt í pólitík eftir nokkra áratugi og farið verður að gefa út tilvitnunarbækur úr því sem við erum að segja, þá verður þetta kannski tilvitnunin sem hæstv. umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, verður borin fyrir um næstu framtíð.

Hæstv. umhverfisráðherra minntist á fyrirspurn sem ég bar hér fram og fékk svar við. Það svar er í raun og veru endurtekið í greinargerðinni. Það sýnir að samþykkt stóriðja plús fyrirhuguð Straumsvíkurstækkun, ef af verður, fer yfir 1.600 þús. tonn á ári, og við erum með því móti komin fram yfir íslensk-mónakóska ákvæðið ef Helguvík, Húsavík og ég tala nú ekki um fleiri álver, t.d. í Þorlákshöfn koma líka. Þá erum við komin langt yfir mörkin sem þetta stóriðjuákvæði setur.

En þetta truflar ekki hæstv. umhverfisráðherra eða ríkisstjórn þá sem hún situr í heldur er hún að mæla fyrir heimild til hömlulausrar stóriðju. Með því að nýta ekki þetta tækifæri er hún að missa í raun og veru af síðasta verkfærinu sem stjórnvöld hafa í höndunum til þess að skapa einhvers konar reglu í þessum málum, síðasta verkfærinu til þess að hemja stóriðjuáform og virkjanasmíðar næstu árin, en á því er þörf að mínu viti en greinilega ekki hæstv. umhverfisráðherra vegna umhverfisorsaka og náttúruverndar í fyrsta lagi, vegna efnahagslífsins í öðru lagi og í þriðja lagi vegna loftslagsmálanna. Annars vegar vegna þeirra skuldbindinga sem ég tel hér vera farið á svig við og hins vegar vegna þess að íslensk orka er að verða miklu dýrmætari en nokkrum datt í hug, einkum þeim sem hafa auglýst hana á útsöluverði fyrr og síðar. Í henni felast miklu takmarkaðri gæði en menn hugsuðu sér áður vegna þess m.a. að smám saman, hvað sem núverandi ríkisstjórn líður, verða möguleikar til orkuvinnslu miklu takmarkaðri af umhverfisástæðum en hingað til hafa verið.

Það er sennilegt, ef rétt er á haldið í ráðuneytunum og í þjóðlífinu, að við þurfum eftir 10–15 ár og jafnvel fyrr á að halda hugsanlega orkuveri á við hálfa Kárahnjúkavirkjun eða kannski heila, til að knýja skipaflotann og bílaflotann með vetni, metani eða öðru, ég segi nú ekki hreinu, en öðru eldsneyti eða orkubera skárri en því sem við notum nú. Upp kann að koma sú staða að innlendar þarfir og áætlanir af þessu tagi beinlínis krefjist þeirrar orku sem við erum nú að úthluta hverju álverinu af öðru.

Til að koma í kring þessum ráðagerðum að nota ekki, eða sem sé að ryðja úr vegi þeirri hindrun sem Kyoto-bókunin og Marrakesh-samþykktin eru í rauninni fyrir áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu og með tilheyrandi virkjunum, þarf að nota eina reikningskúnst sem hæstv. umhverfisráðherra hefur látið sér sæma að fallast á. Það er uppsöfnunaraðferðin eða meðaltalsaðferðin, að miða sem sé íslensk-mónakóska ákvæðið ekki sem eðlilegt væri við 1,6 millj. tonn á ári heldur gera úr henni 8 millj. tonn á fimm árum og síðan er talið í góðu lagi hvernig það skiptist á ár þannig að á síðasta árinu, árið 2012, kynnum við að vera með losun sem væri miklu meiri en íslensk-mónakóska ákvæðið gefur tilefni til og stöndum þar með með miklu meiri losun en nokkrum manni datt í hug við túlkun á því ákvæði þegar nýtt tímabil hefst árið 2013. En það má telja rétt og satt hjá hæstv. umhverfisráðherra þegar hún sagði að ekki sé líklegt að slakað verði á um losunarheimildir í þeim samningum sem nú eru að takast um næsta tímabil. Það þarf að nota hana. Svo segja menn sem hér standa og horfa á þetta tímabil að það hljóti að koma tímar og ráð árið 2013. Kannski bara endurtökum við leikinn og kannski fer þetta einhvern veginn öðruvísi. Að minnsta kosti er það eftir kosningar þannig að þetta er allt í góðu lagi.

Í fyrsta lagi eru núna ákveðnar efasemdir í gangi um það hvort við höfum yfir höfuð leyfi til þess arna. Náttúruverndarsamtök Íslands leituðu álits þýskra lögfræðinga, sérfræðinga á þessu sviði. Þeir sögðu í töluverðri greinargerð sem þeir skiluðu samtökunum að vissulega væri orðanna hljóðan þannig að Íslendingar gætu nýtt þessar 8 millj. tonna í losunarheimildir og væri ekki að því að finna í sjálfu sér hvernig þeir gerðu það.

Hins vegar sögðu þeir — ég verð að lesa mína eigin þýðingu því þetta er allt á lögfræðiensku — að þeir geti ekki reynt að auka þennan kvóta í þeim tilgangi að skapa varanlegt ástand, „status quo“ stendur í textanum, til að réttlæta frekari undanþágur. Ef við gerum það bryti það í bága við skuldbindingar Íslands um að draga úr losun til lengri tíma. Ef Íslendingar reyndu að semja á ný um svipaða undanþágu á næsta tímabili eftir að hafa beitt þessum reikningskúnstum væru þeir að fara á skjön við anda reglnanna, „act in bad faith“ stendur hér á ensku, og slík háttsemi væri andstæð skuldbindingum þeirra samkvæmt þjóðarrétti. Þetta gæti leitt til kröfu um ábyrgð af hálfu Íslendinga þar sem ríkið hefði með háttsemi sinni ekki gætt þjóðréttarskuldbindinganna um að vinna gegn loftslagsvá.

Ég hvet því til þess að menn fari varlega og ég geri ráð fyrir að hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórn hennar hafi á takteinum sterk lögfræðiálit sem segja okkur ekki einungis það sem út af fyrir sig er viðurkennt hér, að ekki þarf að binda sig við 1,6 millj. tonna á hverju ári, heldur líka það hvernig sé skynsamlegt að haga þeim útreikningi. Þá er rétt að hafa í huga af hverju þessi meðaltalsaðferð kom upp í þessum samningum. Skyldi það vera til þess að hæstv. umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, og Framsóknarflokkurinn, samstarfsmenn hennar, geti notað þær reglur til að — ég segi það eins og ég meina það — svindla á þessu ákvæði. Löglegt en siðlaust, var einu sinni sagt. Nei, það var ekki þannig. En það var samt verið að hugsa um skussa. Það var verið að hugsa um skussa af öðru tagi. Verið var að hugsa um þá sem kynnu að vera langt yfir meðaltalinu þangað til á árinu 2012 og kynnu þá að lækka sig rétt niður fyrir meðaltalið til að standast þá skoðun sem þá færi fram.

Þess vegna töldu menn að rétt væri að hafa meðaltal í þessu þannig að ljóst væri að átt væri við tiltölulega jafna losun allan tímann. Það að snúa þessu svo upp í þær reikningskúnstir sem íslenska ríkisstjórnin hefur viðhaft, það þarf nokkurt hugmyndaflug til þess. Og reyndar er það nú þannig, og það verður að segja það þeim mönnum til sóma sem þann sóma eiga skilinn, að menn hafa hikað lengi við þetta. Jónína Bjartmarz, hæstv. umhverfisráðherra, er því miður fyrsti umhverfisráðherrann sem tekur fyllilega af skarið í þessu efni.

Má t.d. minnast þess að í svari við fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvars á næstsíðasta þingi, svaraði hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, sem þá var umhverfisráðherra, en hún var beðin að reikna hugsanlega losun á árinu 2008–2012, til um síðasta árið, að reikna mætti hugsanlega losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi að gefnum ákveðnum forsendum. Hvernig var það svar? Það miðaðist við það að samkvæmt útreikningum væri almenna heimildin um 3,6 millj. tonn árið 2012, að viðbættum, ja hvað mörgum tonnum í íslensk-mónakóska ákvæðinu? Jú, 1,6 millj. tonnum og heildarlosunin gæti þá orðið 5,2 millj. tonna á síðasta árinu. Hér segir auðvitað ekki umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, að það verði svo. En hún gefur fyllilega í skyn að eðlilegt sé að beita meðaltalsreglunni og ekki einhverri annarri reikningskúnst. Þannig að svar umhverfisráðherrans á þeim tíma sýnir ofan í þá hugsun sem þá var, að sá umhverfisráðherra og þeir sem á undan komu, hikuðu við að beita þessari túlkun vegna þess að þeir vissu að hún yrði ekki vinsæl í samtölum þeirra við starfsbræður sína á erlendum vettvangi. Og vegna þess að þeir hreinlega töldu hana sennilega ekki siðferðilega tæka.

Ég sé að það gengur nokkuð á tíma minn. Ég ætla þá að nota síðari ræðuna til að halda áfram þessu litla spjalli um loftslagsfrumvarpið. Þessi reikningskúnst nægir auðvitað ekki. Það stoppar álverin einhvern tíma að reikna þetta svona. Það eru þó ekki nema þessar 8 millj. tonna til úthlutunar að viðbættum þeim milljónum tonna sem við ræddum áðan og eru svona svolítið á faraldsfæti um velli staðreyndanna, en það lagast á eftir, heldur er þetta þannig að stóriðjufyrirtækin eru ekki bundin við úthlutunina. Þau geta keypt sér kvóta þegar úthlutunin er búin. Þau geta gert það eins og hæstv. ráðherra lýsti með því að kaupa hann með einhverjum hætti að utan af kvóta annarra ríkja. Að kaupa hann með einhvers konar samstarfi við skógræktarmenn og landgræðslumenn, sem er auðvitað enn þá mjög ómótað og lítt kannað úrræði án þess að ég vilji draga úr gleði manna í þeim geira við að sjá allt í einu fram á mikinn stuðning við sitt ágæta starf. Þeir geta tekið þátt í þróunarverkunum í þriðja heiminum sem reyndar er margt óljóst um líka en er ein af þeim jákvæðu úrlausnum sem ríkin hafa orðið sammála um að taka upp. Þetta bætist þá við almenna kvótann.

Ég ætla síðan að rekja það í síðari ræðu minni hvernig, hafi ekki aðrir þá gert því þeim mun rækilegri skil, ekki er notað það tækifæri að skapa hér vísi að markaði með þennan takmarkaða kvóta og þar með það kerfi hagrænna hvata sem gæti að lokum leitt til samdráttar af hálfu fyrirtækjanna, notendanna sjálfra, sem er í sjálfu sér betra úrræði en boð og bönn innan þeirra marka sem það kerfi leyfir. Ég ætla að láta þetta nægja að sinni, forseti, og koma hér aftur síðar eins og ég hef áður sagt.