135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

veglagning yfir Grunnafjörð.

405. mál
[18:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Herdís Þórðardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra:

Á hvaða forsendum synjaði ráðherra staðfestingar á þeim hluta aðalskipulags Leirár- og Melahrepps annars vegar og Skilmannahrepps hins vegar er varðar veglagningu yfir Grunnafjörð?

Að því er fram kemur í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu þann 21. ágúst sl. taldi hæstv. ráðherra sér ekki unnt að staðfesta skipulagið í ljósi þess að Grunnafjörður væri talinn eitt mikilvægasta votlendissvæði Íslands og eitt af þremur svokölluðum Ramsar-svæðum hér á landi. Fyrir innan Grunnafjörð liggur nú þegar fjölfarinn vegur á vaxandi atvinnusvæði sem tengir saman sunnanvert Vesturland, þéttar sumarhúsabyggðir, iðnaðarsvæði í Hvalfirði, stórskipahöfn á Grundartanga og sjálft höfuðborgarsvæðið. Breyting á vegarstæðum Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum og upp í Borgarnes er mikið hagsmunamál, enda liggur fyrir sú stefna samgönguyfirvalda að ráðist verði í breikkun Vesturlandsvegar upp í Borgarnes í samgönguáætlun 2007–2010. Brýnt er að tryggja umferðaröryggi á þessari leið en á síðustu árum hafa orðið fjölmörg slys á þessum kafla ekki síst undir Hafnarfjalli þar sem allra veðra er von. Í vetur hefur ítrekað þurft að loka veginum vegna óveðurs undir Hafnarfjalli en breytt vegarstæði með þverun Grunnafjarðar og lagningu vegar nær sjónum að Borgarnesi mundi gerbreyta þessu.

Engin rök hafa verið sett fram fyrir því að lífríki Grunnafjarðar sé betur borgið með núverandi vegarstæði sem m.a. liggur yfir tvö vatnsföll sem falla bæði í Grunnafjörð. Gefur augaleið að við óbreytt ástand stafar lífríkinu veruleg hætta af óhöppum sem orðið gætu á núverandi vegarstæðum. Því miður virðist hæstv. umhverfisráðherra hafa gefið sér þá forsendu fyrir fram að þverun Grunnafjarðar muni raska sjávarföllum í firðinum með þeim hætti að viðkvæmu lífríki svæðisins stafaði hætta af. Þetta hefur alls ekki orðið raunin á þeim svæðum þar sem slíkar framkvæmdir hafa átt sér stað hér á landi. Ég nefni sem dæmi þverun Kolgrafarfjarðar og Gilsfjarðar en í báðum tilvikum hafði þverunin fremur jákvæð en neikvæð áhrif á lífríki á svæðinu öfugt við það sem fyrir fram var talið.

Hæstv. umhverfisráðherra gerir rétt í því að standa vörð um umhverfið en hann verður jafnframt að gæta meðalhófs í stjórnsýslu sinni. Ef sýnt er fram á að hægt sé að haga veglagningum með þeim hætti að lífríkinu stafi ekki ógn af hlýtur ráðherra að endurskoða afstöðu sína.

Í skýrslu sem fyrirtækið Hönnun vann fyrir Akranesbæ á árinu 2005 kemur fram að staðsetja þyrfti hugsanlegt vegarstæði utan friðlands Grunnafjarðar á vestanverðum skerjum í fjarðarmynninu. Afdráttarlaus synjun umhverfisráðherra (Forseti hringir.) á veglagningu yfir Grunnafjörð samræmist að mínu mati ekki reglum um meðalhóf, enda liggur ekki fyrir á þessu stigi hvort þverun Grunnafjarðar mundi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á lífríki svæðisins.