138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

spilavíti.

[15:20]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta skilmerkilega svar og ég fagna því að á leiðinni sé löggjöf til þess að stoppa upp í umrætt gat í löggjöfinni. Ég legg áherslu á að hér erum við ekki einvörðungu að tala um auglýsingar á fjárhættuspili heldur beinan aðgang inn í spilavíti á vefnum, sem hlýtur að vera mjög varasamt og ámælisvert ef við erum sammála um að þetta sé starfsemi sem veldur mörgum einstaklingum og samfélaginu miklu tjóni. Við hljótum að taka alvarlega ábendingar sem fram koma hjá landlæknisembættinu og þeim aðilum sem kafað hafa ofan í þessi mál. Þá þarf að stoppa rækilega í það gat.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. dómsmálaráðherra og fagna því að löggjöf sé á leiðinni.