138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

landbúnaður og aðildarumsókn að ESB.

[15:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann, ég get fullvissað íslenska bændur um að við munum reyna eins og kostur er að ná fram samningi sem ver þeirra hagsmuni. Ég er vinur íslenskra bænda og íslensks landbúnaðar og að hluta til alinn upp af góðum framsóknarbændum á Mýrum. Það sér á mér að lengi býr að fyrstu gerð. Það er alveg ljóst að það skiptir miklu máli líka að bændur komi með inn í þetta ferli. Þeir hafa mesta reynslu, þeir hafa mesta þekkingu, eins og hv. þingmaður segir, og þeir hljóta auðvitað að gera ráð fyrir þeim möguleika, hvað sem skoðanakönnunum líður, að samningur komi og hann verði að lokum samþykktur. Þess vegna skiptir mestu máli að samningurinn verði sem bestur. Ef hv. þingmaður hefur trú á þessum könnunum sér hún að verulega stór hluti þjóðarinnar samsvarar hagsmuni sína íslensku bændahagsmununum. Þá þarf hún ekki að vera mjög hrædd við þetta. Ef samningur kemur sem er vondur dæmir þjóðin hann náttúrlega að verðleikum.