138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

tekjuskattur.

403. mál
[16:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í langa efnislega umræðu um þetta mál sem hæstv. fjármálaráðherra gerði ágætlega grein fyrir að væri leiðrétting á misfellum sem urðu við birtingu á þessu frumvarpi en ég get ekki látið hjá líða að koma hér upp segja eins og sagt er í Ameríku við hæstv. fjármálaráðherra: I told you so, sem útleggst á íslensku: Ég sagði þér að svona gæti farið.

Við ræddum hér fjölmargar skattatillögur fyrir áramót í miklum flýti og það var verið að breyta alls konar hlutum sem kannski hefði verið ástæða til að skoða betur og hafa meiri fyrirvara á vegna þess að við vorum að þessu rétt fyrir áramótin og breyttum hlutum sem eru flóknir í framkvæmd. Það er þess vegna, virðulegur forseti, sem við erum hér núna að ræða þetta frumvarp, eitthvað verður undan að láta þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð. Því vil ég koma hér og hvetja í þessari stuttu ræðu hæstv. fjármálaráðherra í framhaldinu til að læra nú af þessu og ríkisstjórnina alla til að vanda sig betur við þessar skattbreytingar. Ég gæti fjallað ítarlega um þær vegna þess að skoðanir okkar fara ekki alltaf saman í þeim efnum en ég ætla að spara mér það til betri tíma.