138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

lækkun rafmagnskostnaðar garðyrkjubænda.

193. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tala fyrir þingsályktun á þskj. 216, sem er 193. mál þingsins og fjallar um lækkun rafmagnskostnaðar garðyrkjubænda. Ásamt mér eru 19 aðrir þingmenn úr öllum flokkum á þessu máli og má því ætla að það sé nokkuð víðtækur stuðningur við þessa þingsályktunartillögu. Ég tel nokkuð víst að hefði ég eftir því leitað og beðið um það hefði verið hægt að fá fleiri til að vera flutningsmenn á þessari þingsályktunartillögu. Satt best að segja hefur þetta mál komið til tals í sölum þingsins í þó nokkur ár og hafa ýmsir þingmenn úr flestöllum flokkum, að ég tel, tekið þetta mál upp. Það hlýtur því að teljast nokkur stuðningur við málið. Þrátt fyrir það hefur lítið þokast í þá átt að finna varanlegar lausnir á kostnaði garðyrkjubænda vegna rafmagnskaupa, kannski aðallega á flutningskostnaði, og þess vegna er þessi tillaga lögð fram. Hún hljóðar svona:

Alþingi ályktar að skora á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra að kanna leiðir til að lækka rafmagnskostnað garðyrkjubænda, sérstaklega dreifingarkostnað. Ráðherrarnir skili tillögum um leiðir fyrir árslok.

Hugmyndin var, þegar þetta var lagt fram í haust, að þetta yrði fyrir árslok 2009, og það hefði kannski átt að standa. En nú erum við komin fram á þriðja mánuð 2010 og satt best að segja var brugðist við í haust með því að halda áfram með lakari útgáfuna af því að lækka flutningskostnað, með því að auka aftur niðurgreiðslur. Þær voru samþykktar í fjárlagafrumvarpinu, þó með þessum hætti. Í frétt Bændablaðsins , síðasta tölublaði, er talað um að ríkið auki niðurgreiðslur á dreifingarkostnaði raforku til lýsingar á nýjan leik, þ.e. það tekur að hluta til baka niðurskurðinn en með því að Rarik hækkaði flutningskostnaðinn frá 1. janúar 2010 má segja að þar hafi gjaldskráin hækkað um 10% um áramótin. Drottinn gaf og drottinn tók, eins og segir í greininni. Þá kemur m.a. fram að hlutfall dreifingarkostnaðar er um 55% af heildarrafmagnskostnaði garðyrkjubænda en var umtalsvert lægri fyrir áratug.

Markmið tillögunnar er að skapa garðyrkjunni viðunandi starfsumhverfi og tryggja þannig viðvarandi vöxt í greininni. Það liggur fyrir eftir þennan niðurskurð sem varð um áramót 2009 þar sem dregið var úr niðurgreiðslum um 30% á dreifingarkostnaðinum, varð verulegur samdráttur í raforkunotkun garðyrkjubænda. Hann var um 8,6% og heildarsamdrátturinn stefndi í að verða um 10% á þessu ári. Samkvæmt nýjustu upplýsingum er þó staðan þannig að eftir að þessi breyting var gerð í desember og almenn jákvæðni og bjartsýni garðyrkjubænda var um að framleiða þessar heilnæmu vörur á markað — á markað sem er til — hefur dregið úr þessum samdrætti eða hann hefur alla vega ekki haldið áfram að aukast. En á þeim tíma þegar þetta var lagt fram kom fram að tómataframleiðslan hafði minnkað um 17% á árinu og það á því ári þegar nauðsynlegt var að framleiða sem mest innan lands. Þá var markaður fyrir heila nýja garðyrkjustöð, tómatastöð, upp á 5.000 fermetra. En það þorði enginn að fara í neinar framkvæmdir við þær aðstæður sem uppi voru.

Forsaga málsins er sú að árið 2005 gerði Samband garðyrkjubænda samkomulag við ríkið, þ.e. bæði iðnaðarráðherra og landbúnaðarráðherra þáverandi um 95% niðurgreiðslu á kostnaði við dreifingu rafmagns vegna breytinga á lögum um raforku. Fyrirséð var að lagasetningin mundi leiða til 30% hækkunar á rafmagnskostnaði garðyrkjubænda.

Síðan hefur það gerst frá þeim tíma að raforkunotkun hefur aukist gríðarlega, það var uppbygging í þessum geira, og rafmagnsnotkunin jókst í garðyrkjunni um tæp 115% frá 2002–2009. Einnig má nefna að í kjölfar áðurnefndrar breytingar á raforkulögum varð einnig sú breyting á að raforkukostnaður fyrirtækja á svæðum sem skilgreind eru sem dreifbýli hafa aukist verulega umfram kostnað fyrirtækja í þéttbýli. Það er athyglisvert að í 2. gr. skipulagslaga er þéttbýli skilgreint sem þyrping húsa þar sem a.m.k. 50 manns búa. Aftur á móti er samkvæmt reglugerð um rafmagn heimilt að hafa dreifbýlisgjaldskrá á svæðum sem hafa færri íbúa en 200. Það skiptir því gríðarlega miklu máli hvort garðyrkjustöðvarnar eru skilgreindar í þéttbýli eða dreifbýli. Samkvæmt þessu tvennu er líka augljóst að þessi mál heyra undir iðnaðarráðherra og hægt er að breyta þessu kerfi með því að breyta reglugerðum og/eða lögum. Þingsályktunin miðar að því að hæstv. iðnaðarráðherra er hvött til að láta endurskoða reglugerð og gjaldskrár með það að leiðarljósi að eyða framangreindri mismunun á grundvelli staðsetningar og byggja frekar á notkunarviðmiðum. Þannig verði leitað leiða til að minnka dreifingarkostnað á rafmagni til stórnotenda eins og garðyrkjustöðva án þess að til beinna niðurgreiðslna af hálfu ríkisins þurfi að koma, sem er auðvitað óæskilegri leið. Að öðrum kosti verði ákvörðun um að skerða niðurgreiðsluhlutfall dreifingarkostnaðar endurskoðað og tekið til baka, sem er búið að gera að hluta eins og kom fram. Reyndar jók ríkisvaldið fjárframlög til garðyrkjunnar til að koma til móts við skattahækkanir sem voru einnig settar á orku á þessum tíma. Það gefur sem sagt með annarri hendi og tekur með hinni. En við, allir þessir þingmenn, viljum hvetja til að þetta verði skoðað í heild sinni og endurskoðað með það fyrir augum að finna leiðir til þess að kostnaðurinn sé eðlilegur og menn greiði sanngjarnt verð fyrir raforkuna án þess að til niðurgreiðslna komi.

Til þess að fylgja þessu úr hlaði eru fjögur fylgiskjöl með greinargerðinni. Það er í fyrsta lagi fskj. 1, frá Eflu verkfræðistofu, þar sem Jón Vilhjálmsson rafmagnsverkfræðingur fjallar um þróun raforkunotkunar gróðurhúsa og raforkuverð. Greinin er frá 2007. Þar kemur fram að á árinu 2007 notaði lýsingarhluti gróðurhúsanna, sem er niðurgreiddur en ekki önnur raforkunotkun, um 62 gígavattstundir á árinu 2007. Á því ári voru um 60% af notkuninni í dreifbýli en 40% í þéttbýli. Það kemur jafnframt fram í þessum gögnum að dreifingarkostnaðurinn hefur hækkað umtalsvert meira en orkunotkunin, sem þó hafði aukist umtalsvert líka.

Í fskj. 2, sem heitir Rafmagn til garðyrkju og birt var á bondi.is, er fjallað almennt um raflýsingu í garðyrkju, þróun og staðsetningu stöðva. Þar kemur einmitt þetta sama fram um notkunina 2007 og 2008 og þessar 62 gígavattstundir samsvara 13 megavöttum í afli.

Það kom líka fram í þessari grein, sem er svolítið áhugavert, að bornar voru saman einar 28 garðyrkjustöðvar og ýmsir þéttbýlisstaðir á landinu. Þéttbýlisstaðir eins og Ísafjörður, Skagafjörður, Hveragerði og Borgarnes notuðu minna rafmagn en þó nokkrar af garðyrkjustöðvunum, sem er auðvitað mjög áhugavert.

Í fskj. 3 er samkomulag um raforkudreifinguna sem áður var nefnt frá 2005 milli landbúnaðarráðuneytis, Rariks og Sambands garðyrkjubænda. Eins er fskj. 4 skýrsla sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í ágúst 2009 og heitir Verðmyndun á raforku til garðyrkjubænda . Þetta er ítarleg skýrsla um stöðuna á þeim markaði. Það sem ég vildi bæta við er að í fskj. 3 í 7. lið, í samkomulaginu milli Rariks, garðyrkjubændanna og landbúnaðarráðuneytisins, er fjallað um að samhliða samningi þessum skuli aðilar í samvinnu við Orkustofnun stefna að því að koma á fót verkefni um orkusparnað við lýsingu í gróðurhúsum. Verkefnið sem er samstarfsverkefni Vistvænnar orku ehf., Orkuseturs, Sprotans, frumkvöðla- og tækniþróunarseturs Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og Háskóla Íslands, reyndar koma fleiri þar að. Unnið hefur verið að því í sambandi við ljósdíóðulampa og er grein í Bændablaðinu um hvernig það gengur. Það lofar mjög góðu og stefnir í að orkusparnaður geti hlaupið á tugum prósenta ef vel gengur. Þetta skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli.

Garðyrkjubændur hafa sótt það nokkuð hart á síðustu árum að þeir njóti sanngirni varðandi raforkunotkun og kostnað og það hefur satt best að segja verið svolítið erfitt að fara í þá umræðu. Hún er svolítið flókin, t.d. þegar kemur í ljós í þessari þingsályktunartillögu að málið heyrir að nokkru leyti undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. En í raun og veru eru allar lausnirnar sem þetta mál snertir hjá iðnaðarráðuneytinu og hæstv. iðnaðarráðherra. Þess vegna er ályktunin hvatning til þessara tveggja ráðherra og þurfa því hæstv. ráðherrar að koma sér saman um þetta. Það hefur verið erfiðast fyrir garðyrkjubændur að eiga við ríkisfyrirtækið Rarik og dreifingarfyrirtækin. En ég ítreka enn og aftur að garðyrkjubændur hafa fyrst og fremst verið að tala um sanngirni, þeir hafa ekki endilega fullyrt að þeir eigi að fá orku á sama verði og stóriðjan sem notar og nýtir rafmagnið betur á hverjum klukkutíma yfir heilt ár og til lengri tíma, en menn hafa hins vegar sagt að það sé nauðsynlegt að skilgreina garðyrkjuna sem stórnotanda og njóta sanngirni hvað það varðar. Í því sambandi vil ég geta þess að í samstarfi við sveitarfélög þar sem garðyrkjan er mest, þ.e. sveitarfélög í Hrunamannahreppi og Bláskógabyggð sem hafa Laugarás, Flúðir og Reykholt, þar sem um 78% af allri grænmetisframleiðslunni fer fram, var sett upp líkan að nýrri dreifiveitu sem tók yfir öll þessi þrjú þorp sem spönnuðu þó nokkurt svæði, til að byggja upp nýtt dreifikerfi. Miðað við að hafa sama dreifingarkostnað hefði þessi dreifiveita greitt sig upp á fimm árum þannig að það er augljóst að inni í þessum flutningskostnaði til garðyrkjunnar er verð sem hægt er að endurskoða. Það er óeðlilegt að þegar ríkisfyrirtækið Rarik hækkar gjaldskrá sína til garðyrkjubænda hækki niðurgreiðslan á móti. Það er miklu eðlilegra að skilgreina hvað er eðlilegt og að viðkomandi atvinnugrein greiði þá eðlilegt gjald miðað við hvernig hún nýtir það.

Garðyrkjan er, eins og við höfum kannski rætt áður í þessum stóli, ákaflega mikilvæg atvinnugrein. Hún framleiðir ekki aðeins heilnæm matvæli sem við þurfum að framleiða meira af, gjaldeyrissparandi og eykur lýðheilsu landsmanna, heldur er hér á ferðinni vaxandi atvinnugrein sem veltir um 2,5 milljörðum árlega, sé miðað við heildsöluverð, og skapar fjölda fólks atvinnu. Í því sambandi vil ég nefna að í áðurnefndum sveitarfélögum, eins og til að mynda í Hrunamannahreppi sem er sveitarfélag með um 800 íbúa, er garðyrkjan fjölmennasta atvinnugreinin. Þar er fjölbreytt atvinnulíf og á sl. 40 árum, frá 1970, hefur íbúaþróun í þessu dæmigerða sveitar-sveitarfélagi verið með þeim hætti að þar hefur fjölgað umfram landsmeðaltal allan þann tíma. Það er alveg ljóst að ef við ýtum undir slíka hluti, eins og að framleiða vörur á Íslandi sem við getum nýtt náttúruauðlindir okkar til og gerum það á skynsamlegan hátt, búum við líka til lífvænleg samfélög, ekki bara á Suðvesturhorninu heldur hvarvetna á landinu.

Ég ætla síðan að enda ræðu mína á því að hvetja ráðherrana til að taka þetta skarpt upp og líka að hvetja þingmenn og þakka öllum þeim 18 sem tóku þátt í því að leggja þetta fram með mér. Ég býst fastlega við því að þetta geti gengið nokkuð hratt og vel í gegnum þingið, frú forseti.