139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[14:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu þar sem hann fór ágætlega yfir hvernig hv. þingnefnd hefur farið yfir þetta mál og ég held að við séum öll sammála um að við viljum sjá virkar rannsóknarnefndir. Ég held að það skipti mjög miklu að við þingmenn höfum tæki til að skoða mál sérstaklega og betur en gert hefur verið. Ég held að best færi á því að menn þyrftu ekki í hvert skipti að leggja mál þannig upp að það væri svo gríðarlega alvarlegt að enginn annar flötur væri, heldur snýst þetta fyrst og fremst um eftirlitshlutverk þingsins, að menn kanni mál þegar ástæða þykir til og það á ekki að vera í hvert skipti eitthvert stórmál ef þannig má að orði komast. Það skiptir máli að komast til botns í hlutum og ekkert óeðlilegt við það og síðan getur ýmislegt komið út úr því eins og við vitum.

Eins og hv. þingmaður fór yfir og það kemur fram í nefndaráliti að verið er að tala um að í nýjum þingsköpum hugsanlega verði einni þingnefnd falið þetta og sökum þess að þau eru ekki tilbúin á hv. allsherjarnefnd að sjá um það. Ég hef áhuga á að vita hver helstu rökin eru fyrir því að þetta eigi bara að vera hjá einni þingnefnd. Ég hef setið í ýmsum nefndum frá því að ég var fyrst kosinn á þing. Þar setur viðkomandi þingnefnd sig vel inn í ákveðið mál og kemst kannski að þeirri niðurstöðu að það þurfi að skoða betur. En samkvæmt þessum hugmyndum þarf að framselja málið í þessu tilfelli til allsherjarnefndar sem væntanlega þarf þá að byrja á núllpunkti ef þannig má að orði komast. Væri ekki skynsamlegra að hver nefnd gæti sett af stað rannsóknir?