143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi varðandi gagnrýni á einstaklinga og pólitísk tengsl. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er verið að gagnrýna menn af verkum þeirra. Að uppistöðu til fjallar skýrslan um verk manna.

Það sem ég hef hins vegar verið að vekja athygli á er að þessi verk manna eru iðulega tengd pólitískri sannfæringu þeirra eða tengslum við tiltekna pólitíska flokka. Ég tel að ef slíkt er sett fram verði menn að gera grein fyrir því hvað þar hafi farið úrskeiðis eða hvort um einhverja misnotkun hafi verið að ræða. Ég vil líka leggja áherslu á að mönnum er mismunað hvað þetta varðar, það er ekki sama í hvaða pólitíska flokki menn eru eða aðstoðarmenn hverra þeir hafa verið. Það eru teknir tilteknir einstaklingar og þá sérstaklega framsóknarmenn og tengsl við Framsóknarflokkinn, en þarna koma við sögu ýmsir aðrir úr öðrum stjórnmálaflokkum án þess að þess sé getið, svo að talað sé alveg hreint út.

Hvað varðar rannsóknarnefndina á okkar fund, nei. Þegar rannsóknarnefndin afhenti forseta Alþingis skýrslu sína um mánaðamótin júní/júlí í fyrra var störfum hennar lokið. Störf hennar birtast í fjórum bindum sem við erum búin að vera að fjalla um síðan. (Gripið fram í: Hún kom á fund nefndarinnar.) Hún kom á fund nefndarinnar í upphafi og gerði í stuttu máli grein fyrir afstöðu sinni sem þá kom mjög skýrt fram hver var, hver útgangspunktur hennar var og ég vék áðan að átökunum sem áttu sér stað á árunum 2003 og 2004 á milli Íbúðalánasjóðs og fjármálakerfisins.

Varðandi skoðanir mínar á húsnæðiskerfinu ætla ég að reyna að halda mig svolítið við skýrsluna í þessari (Forseti hringir.) umræðu, en ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að á því hef ég mjög ríkar skoðanir.