143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að hefja umræðuna og vekja athygli á stöðunni með fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrr í vetur. Sú staðreynd að tekjur á hvern ferðamann á síðustu árum hafa lækkað vekur mjög margar spurningar. Hefur dvalartími hvers ferðamanns styst? Leggja ferðamenn nú meiri áherslu á vörukaup en kaup á þjónustu? Er eitthvað annað í hegðun ferðamanna sem hefur breyst?

Vitum við hvert tekjurnar af ferðaþjónustunni renna eða vitum við hvert við viljum að þær fari? Fara þær til uppbyggingar innan greinarinnar, til uppbyggingar og stuðnings við greinina eða renna þær eitthvað allt annað? Hvernig er þessu farið á svæðum sem lengst eru frá þekktum og aðgengilegum ferðamannastöðum þar sem til dæmis ekki er rekin heilsársferðaþjónusta? Hversu mikið af tekjunum af þeirri þjónustu verður eftir til uppbyggingar samfélagsins og heilsársþjónustunnar?

Rekum við nýlendustefnu á því sviði?

Mér sýnist ekki ganga of vel að dreifa ferðamönnum um landið og enn verr að dreifa tekjunum af ferðaþjónustunni um landið.

Síðustu daga höfum við rætt um að afla tekna með sérstöku gjaldi til uppbyggingar á fjölförnum, viðkvæmum stöðum og til að tryggja öryggi. En hvað með opnun vega að ferðamannastöðum, hálkuvarnir og ýmislegt fleira, sem við sem samfélag sinnum ekki daglega um land allt? Hver á að opna Dettifossveg? svo dæmi sé nefnt.

Er opinberi stuðningurinn við ferðaþjónustuna á réttri leið? Væri til dæmis skynsamlegra að eyða einhverju af því fjármagni sem nú fer í markaðssetningu til öflunar á tölfræði um raunverulegar tekjur og rannsóknir á hegðun ferðamanna? Nýtum við þær upplýsingar sem við þó höfum nú þegar til (Forseti hringir.) stefnumótunar?