143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að bregðast skjótt við beiðni minni um sérstaka umræðu um þetta aðkallandi mál. Ég hafði raunar beðið hæstv. forsætisráðherra um að vera til andsvara í þessari umræðu, lagði fram beiðni um það í janúar, en fékk ekkert svar í margar vikur. Ég vildi ræða við hæstv. forsætisráðherra um þetta mál vegna þess að það er eitt stærsta hagstjórnarverkefni samtímans og hann er verkstjóri í ríkisstjórninni og hefur haft talsvert stór orð um þetta verkefni, bæði í aðdraganda kosningabaráttunnar, í kosningabaráttunni og eftir hana. En ólíkt hafast þeir að og ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að bregðast skjótt við eftir að ég breytti beiðni minni þannig að hann yrði til andsvara.

Ég lít svo á, og við í Bjartri framtíð og örugglega mjög margir hér inni, að þetta sé eitt stærsta viðfangsefnið, ef ekki það stærsta í hagstjórn á Íslandi. Við búum ekki við frjálst, opið og alþjóðlegt markaðshagkerfi. Ég hvet ykkur til að hlusta hér á eftir á ræðu hv. þm. Brynhildar S. Björnsdóttur sem hefur rannsakað hvernig þessi höft koma t.d. við ný fyrirtæki, sprotafyrirtæki, á Íslandi. Eitthvað það mikilvægasta sem við stuðlum að í hagkerfi er að skapa grundvöll fyrir ný fyrirtæki, fyrir sprota að vaxa. Höftin koma allverulega niður á þeim þætti hagkerfisins.

Það hlýtur að vera eitt mesta aðkallandi viðfangsefni ríkisstjórnarinnar að losa höftin. En þar hafa menn ekki talað skýrt. Fyrsta spurning mín til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er einfaldlega þessi: Eftir hvaða áætlun er unnið að losun hafta á Íslandi?

Það berast alls konar misvísandi upplýsingar. Á flokksfundi síns flokks sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að verið væri að vinna eftir plani. Það plan hefur ekki verið þingmönnum augljóst. Í dag er haft eftir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að jafnvel komi til losunar hafta á þessu ári. Hvernig má það vera og hvaða áætlun er það? Það væri ágætt að heyra hvort rétt sé haft eftir hæstv. fjármálaráðherra, að minnsta kosti í Aftenposten, held ég.

Svo var að koma út skýrsla frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um það hvernig gangi að losa höft. Eitt sem er mjög athyglisvert í þeirri skýrslu er að sú framtíðarsýn sem dregin er þar upp er að losun hafta verði ekki losun hafta heldur er í raun og veru lagt til að alls konar þættir haftanna fái einfaldlega ný nöfn. Þannig er gert er ráð fyrir, eins og ég skil skýrsluna og þá framtíðarsýn, að áfram verði gjald á fjármagnsflutninga úr landinu, takmörkun verði á heimild fyrir banka til að safna innstæðum erlendis og bann verði við gjaldeyrislánum til aðila sem hafa ekki tekjur í erlendri mynt.

Þetta er auðvitað, þegar safnast saman, innihald haftanna eins og þau eru núna. Þannig að ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er þetta merking þess í hans huga að losa höftin, að breyta þeim bara í raun og veru?

Svo er þriðja spurningin sem lýtur að því sem ég tel vera rót vandans. Það er einfaldlega sá vandi að ekki ríkir traust á íslenska hagkerfinu. Þess vegna erum við með lög sem banna aðilum að fara með peninga úr landi. Hvernig á að byggja upp traust? Sú lykilspurning liggur til grundvallar þessum vanda. Þar hegg ég eftir einu í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar er sagt að hafið var samráð við Seðlabanka Evrópu, við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um samstarf við að afnema höftin á Íslandi. Ég held að það hafi verið býsna gott að hafa samráð við þessar mikilvægu stofnanir og okkar viðskiptaaðila til að mynda traust á þessu ferli.

Tekur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra undir það með mér að það sé slæmt að þetta samráð sé ekki til staðar og það sé slæmt að hafa lokað þeim dyrum með því að hóta því núna að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið?

Svo vil ég líka spyrja hann að því grundvallaratriði hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, á þessum tímapunkti, sérstaklega eftir að skýrsla ráðuneytis hans kom út, að gjaldeyrishöftin í núverandi mynd eða í framtíðinni muni ekki standast samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. (Forseti hringir.) Hvað gera bændur þá?