144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[16:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta mál snýst um jafnræði fólks og fyrirtækja í landinu og eðlilega samkeppnishætti. Þetta er freklegt inngrip í eðlilega samkeppnishætti í fiskeldi. Það er ekki bara mín skoðun, það er líka skoðun Landssambands fiskeldisstöðva sem gerir harkalegar athugasemdir við þennan samning, eðlilega vegna þess að maður getur spurt: Er þetta jafnræði, geta þeir sem hafa áhuga á að fjárfesta í einhverju í landinu sem ekki felur í sér neina sérstaka nýsköpun bara labbað inn í iðnaðarráðuneytið og fengið hundruð milljóna í samningi við ráðherrann með fyrirvara um að Alþingi setji einhver lög í framtíðinni? Nei, það er ekki þannig. Þess vegna vekur þetta spurningar um sérmeðferð þeirra sem hér eiga í hlut. Hvers konar sérmeðferð fá eiginlega þessir aðilar, að fá hundraða milljóna króna samning án þess að nokkur lög séu í gildi þar um og það sé tekin sérstök ákvörðun um að ráðherrann samþykki það með fyrirvara um lög? Af hverju má, meðan lög eru ekki í gildi, fara þannig öðruvísi með þann samning en aðra slíka samninga, eins og um Algalíf og Thorsil, sem eru lagðir fram í þinginu og þurfa að þola umræðu og rýni? Það er augljóst af þessari umræðu hvers vegna þetta fyrirtæki fékk þessa sérmeðferð. Það er vegna þess að þetta hundraða milljóna króna framlag þolir ekki nokkra skoðun. Meginforsendur í þessu máli eru með þeim hætti að það verður að gera verulegar alvarlegar athugasemdir við að verið sé að veita þennan stuðning. Ég hvet þá nefnd sem heldur utan um málið í þinginu að standa vaktina og gæta þess að ekki sé farið svona með almannafé.