149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

þriðji orkupakkinn.

[15:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er í mínum huga ekki hægt að bera saman það hvort á sínum tíma hefði átt að bera EES-samninginn undir þjóðina eða þennan þriðja orkupakka, sem er tæknilegt framhald á fyrsta og öðrum, og felur ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á því fyrirkomulagi sem við höfum í dag.

Þess utan höfum við utanríkisráðherra farið í mjög mikla vinnu undanfarna mánuði, m.a. vegna þess að margir hafa haft áhyggjur og efasemdir, þar á meðal hv. þingmaður. Við höfum lagt okkur fram við að reyna annars vegar að svara þeim spurningum sem upp hafa komið og greina þau álitamál í þaula og svo til viðbótar því höfum við brugðist sérstaklega við með þeim hætti sem kynntur hefur verið um helgina. Þau frumvörp sem eru á leiðinni inn í þingið frá mér snúa að sæstrengnum, að þingið hafi um það að segja og hér verði ekki lagður sæstrengur nema Alþingi ákveði það. Verði mitt frumvarp að lögum er auðvitað verið að gera næstu þingum erfiðara fyrir að taka slíka ákvörðun. Það þarf þá að fara í gegnum þetta ferli sem það annars þyrfti ekki að gera.

Á fjögurra ára fresti kjósum við til þings og stundum oftar. Meiri hluti á hverjum tíma getur tekið ákveðnar ákvarðanir, m.a. um lagningu sæstrengs. Ég hef engin völd til að banna kjörnum fulltrúum til frambúðar og framtíðar að taka slíkar ákvarðanir. Í lýðræðinu kjósum við fulltrúa okkar á þing, almenningur kýs inn á þing og það er okkar að framfylgja vilja hans (Forseti hringir.) og fara með þau völd fyrir hans hönd. Það erum við að gera í þessu og þess vegna sé ég ekki tilefni til að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.