149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

ferðaþjónustan og hækkun lægstu launa.

[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja, enn og aftur í þessari umræðu í dag, að það hefur ekkert enn þá gerst af því sem menn eru að spyrja mig um viðbrögð við, t.d. varðandi áfall í ferðaþjónustu. Ég held því að ég láti duga að segja að ef eitthvað slíkt gerist þurfum við saman að meta mjög vandlega möguleg áhrif af því. En ljóst er að það mun leiða til samdráttar í hagkerfinu.

Varðandi skatta og lægstu laun höfum við lagt fram tillögu sem er ekki komin fram í þingskjali en við höfum sem sagt sýnt tillögu þar sem við náum hlutfallslega mestu skattalækkuninni neðst. Þegar við höfum verið að breyta prósentunni einni og sér hefur það verið gagnrýnt í gegnum tíðina að hlutfallslega skili það sér betur til þeirra sem hafa hærri launin, að fleiri krónur komi til þeirra sem hafi hærri launin með því að breyta skattprósentunni einni og sér. Þess vegna hafa margir í þessum sal oft talað fyrir því að við breytum eingöngu persónuafslætti, af því að það komi sér hlutfallslega best fyrir þá sem eru neðst og hlutfallslega ekki eins vel fyrir þá sem eru með hærri laun.

Nú komum við með útfærslu sem jafngildir því og þá segja menn: Þetta er ósanngjarnt vegna þess að jafn margar krónur koma til þeirra sem eru nálægt hátekjuþrepinu og þeirra sem eru neðar.

Um það vil ég segja í fyrsta lagi að hlutfallslega kemur þetta best út fyrir þá sem eru með lægstu launin. Menn koma hér og segja: Það er engin þörf fyrir að auka ráðstöfunartekjur fólks sem er með 600.000, 700.000, 800.000 kr., jafnvel þótt það væri ekki nema sem næmi hálfu prósenti í launahækkun. Það er engin þörf fyrir það. Ríkisstjórnin á ekki að vera að hafa áhyggjur af því fólki. Þá segi ég við þá hina sömu: Komið þið með yfirlýsingar frá stéttarfélögum þessa fólks um að farið verði fram á 0% launahækkun. Fáið þær frá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, kennurum og öðrum sem þið greinilega trúið að séu hópar (Forseti hringir.) sem eru ekki að reyna að bæta kjör sín.

Eða hvað erum við annað að gera með skattalækkun en að auka ráðstöfunartekjurnar og hjálpa þessu fólki að bæta kjör sín, sem er nákvæmlega það sem vinnudeilan snýst um í dag?