149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

[15:40]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. 1. mars sl. var göngudeild SÁÁ á Akureyri lokað. Við erum búin að taka þessa umræðu nokkuð reglulega við hæstv. heilbrigðisráðherra hér í þinginu, m.a. í óundirbúnum fyrirspurnum í lok janúar í fyrra þar sem svipuð staða var komin upp varðandi göngudeildina á Akureyri. Hún hefur verið starfrækt frá 1993 og sinnt svæðinu frá Blönduósi og austur á firði. Það sem gerðist í samþykktum fjárlögum hjá okkur í desember var að veittar voru 150 milljónir til SÁÁ með áherslu á að það fjármagn færi í göngudeildir SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri. Nú eru að verða liðnir þrír mánuðir af þessu ári og það virðist sem það hafi gengið ákaflega hægt þessa þrjá mánuði að ná einhverju samkomulagi milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um hvernig eigi að fara með þetta fjármagn.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig gangi varðandi að þessir aðilar nái samkomulagi um að nýta fjármagnið til þeirra verkefna sem þeim var falið af þinginu í desember þegar við samþykktum fjárlög 2019 og hver staða málsins er á þessum tímapunkti.