149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessa þörfu umræðu. Ég er nú reyndar tvisvar sinnum búinn að biðja um nákvæmlega þessa umræðu. Því miður hefur það einhvern veginn farist fyrir þó að ráðherrann hafi verið velviljaður. Kannski ekki gott að Sjálfstæðismenn séu framsögumenn í svona góðu máli.

Ég var í starfshópi ráðherra sem fjallaði um undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði og skilaði mjög góðu starfi að mínu mati enda hópurinn gríðarlega vel skipaður af fólki úr atvinnulífinu og ekki síst frá stofnunum þjóðfélagsins. Í skýrslunni segir að starfshópurinn leggi áherslu á það stefnumið að hindra og stöðva brotastarfsemi á vinnumarkaði, ekki aðeins félagsleg undirboð heldur alla brotastarfsemi á vinnumarkaði. Í því felist sameiginlegir hagsmunir launafólks, atvinnulífs og samfélagsins alls. Markmiðið sé að regluverk og aðgerðir séu skilvirk og skili tilætluðum árangri. Skýr pólitískur vilji og stuðningur stjórnvalda sé forsenda árangurs.

Mér finnst þetta mjög skýr skilaboð. Ég hefði viljað spyrja ráðherrann að því hversu mikinn undirbúning þurfi til að koma tillögum hópsins í framkvæmd. Hvaða lagabreytingar er nauðsynlegt að gera og hve langan tíma má ætla að það taki að breyta lögum og færa eftirlitsaðilum verkfæri til að takast á við vandann? Það er gríðarlega mikilvægt atriði að þeir sem fylgjast með vinnumarkaðnum hafi einhver verkfæri til að taka á þeim málum.

Það voru síðan tíu tillögur sem hópurinn lagði fram og ráðherrann fór ágætlega yfir þær hérna áðan. Ég verð bara að segja það í lokin, virðulegur forseti, að það var með ólíkindum að hlusta á starfsmenn skattsins og lögreglustjóra og heyra hvernig farið er með grimmd og ágirnd gegn erlendu vinnuafli sem hefur verið undirstaðan á vinnumarkaði síðastliðið ár. Það er þjóðinni til háborinnar skammar hvernig það hefur verið. Það er gríðarlega mikið atriði að á því verði tekið föstum tökum og ég treysti ráðherranum vel til þess.