149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna þeim tillögum sem við fengum í byrjun árs um félagsleg undirboð. Loksins, loksins vil ég segja, af því að það hefur tekið allt of langan tíma að komast á þann stað sem við erum á í dag. Skýrslan er virkilega góð enda byggir hún á samtali og samstarfi á milli þeirra aðila sem málin snerta, aðila vinnumarkaðarins, launafólks, atvinnurekenda og ríkisins.

Það er sannast sagna skammarlegt hvernig sumir hafa leyft sér að koma fram við verkafólk á síðustu árum. Þetta er fólk sem að miklu leyti vinnur í þeim atvinnugreinum sem hafa verið vaxandi og staðið undir hagvexti síðustu ára, ferðaþjónustu og byggingariðnaðinum sérstaklega. Þegar við horfum á fréttaskýringarþættina sem hér hafa verið nefndir í ræðum þá er sannast sagna kaldhæðnislegt að fólkið sem byggir öll þessi glæsihýsi þurfi sjálft að búa í einhverjum hreysum, illa einangruðu og leku iðnaðarhúsnæði einhvers staðar í útnára á meðan það reisir hér hallirnar yfir okkur hin. Þessi þarf að snúa við og gott að heyra ráðherrann er til í tuskið.

Ég má til með að nefna verkalýðshreyfinguna sérstaklega vegna þess að hún fyllti í þá eyðu sem allt of lengi var þar sem stjórnvöld áttu að vera. Það kemur verkalýðshreyfingunni ekkert á óvart hvernig ástand mála er. Hún hefur unnið á síðustu árum mikið þrekvirki í því að berjast fyrir réttindum launafólks, að fylgjast með því hvar brotið sé á fólki, hvar félagslegt undirboð og vinnumansal kann að eiga sér stað þar sem fjármagn og heimildir hins opinbera hefur skort.

Nú er kominn á fót formlegur samstarfshópur ríkisstjórnar, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, (Forseti hringir.) sem ráðherra sagði hér í ræðu að hefði fundað í fyrsta sinn í síðustu viku, þannig að vonandi, herra forseti, erum við komin með skikk á þessi mál.