149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur og taka þátt í henni með okkur í dag.

Ég er ein af þeim sem sat fyrir framan sjónvarpstækið þegar fréttaskýringarþátturinn Kveikur birtist okkur í vetur. Ég verð að segja að þó að maður vissi að staðan væri svört og að virkilega væri verið að níðast á viðkvæmum hópi sem hingað kæmi til þess að vinna og taka þátt í uppbyggingu í samfélagi okkar bjóst ég aldrei við að ástandið væri svona svart.

Ég vil þakka öllum þeim þingmönnum sem talað hafa á undan mér og kortlagt stöðuna hægt og hljótt því að það skiptir öllu máli að við tökum utan um málið af festu. Það er í rauninni dapurlegt að það skuli þurfa að koma til fréttaskýringarþátta og annars eins til að ýta almennilega við hv. löggjafanum. Í þessu tilviki sjáum við það eins og svo oft áður að það er nauðsynlegt hafa rannsóknarblaðamennsku, þann þrýsting og það upplýsingaflæði sem við fáum með henni.

Mér finnst hins vegar ekkert hafa verið rætt um það hér hvaða viðurlögum við eigum að beita þegar einbeittur brotavilji, eins og við höfum nú ítrekað þurft að horfast í augu við, verður dreginn fram í dagsljósið. Er ekki kominn tími til að við tökum virkilega til hendinni og komum í veg fyrir að jafnvel ítrekað séu sömu aðilar bara með mismunandi aðferðum og einbeittum brotavilja að níðast á þeim sem síst skyldi?

Ég þakka hjartanlega fyrir þessa umræðu og hvet hæstv. ráðherra til dáða. Ég efast ekki um að hann mun taka málið traustum tökum.