149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni þessa umræðu. Um er að ræða mál sem yfirleitt snýst um græðgi og siðleysis ákveðinna aðila, sem betur fer ekki allra en það eru alltaf skemmd epli inn á milli sem nýta sér ódýrt vinnuafl og níðast á því án þess að blikna. Það segir mikið um löggjafann að við skulum geta rætt svona mál ár eftir ár og samt virðist lítið þokast í rétta átt. Þetta er fólk sem fær borguð mjög lág laun og það veit ekki einu sinni hver réttur þess er vegna þess að fólkið talar ekki okkar tungumál og því er ekki kynntur réttur sinn á eigin tungumáli.

Það ömurlegasta í því öllu saman er þegar fólk er komið í þá stöðu að búið er að rýja það inn að skinni og það kemst ekki einu sinni heim til sín aftur, á ekki fyrir fargjaldinu heim, enda borgar þetta fólk himinháa leigu eins og við höfum séð. Það er ömurlegt til þess að vita að þarna er oft fjöldi manns saman í einu herbergi. Fyrir utan það virðist allt í svona tilfellum vera vonlaust. Menn hafa ekki einu sinni almennilegan aðgang að náðhúsi og eru svo að byggja lúxushótel og lúxusíbúðir.

En það sem mér finnst eiginlega alvarlegast er það sem varðar mansal og þrælahald. Mér finnst skelfilegast í því öllu saman að við skulum hafa látið vændi og mansal viðgangast á milli nefndasviðs Alþingis og skrifstofa alþingismanna. Það hefur viðgengist í langan tíma án þess að við vissum (Forseti hringir.) að á viðkomandi skemmtistað færi fram mansal og vændi. Þetta er ömurlegt (Forseti hringir.) og það segir svolítið um okkur að þetta skuli gerast beint fyrir framan nefið á okkur og við höfum ekki hugmynd um það. Ég spyr mig: Þurfum við fjölmiðla (Forseti hringir.) til að upplýsa okkur um það sem var að gerast við hliðina á okkur? Það er alveg stórfurðulegt.