149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góða umræðu um þetta mikilvæga mál. Sú skýrsla sem hæstv. ráðherra lét vinna er fyrir margra hluta sakir mjög góð, en við lestur hennar verð ég þó að segja að mér finnst fátt nýtt koma þar fram frá því ég kom fyrst að þessum málaflokki fyrir sex árum síðan. Þetta er vandamál sem er búið að ræða mjög lengi og lausnirnar sem við viljum gjarnan leita í alltaf þær sömu, það þurfi að herða lög og reglur og það þurfi að herða lög og reglur.

Við verðum að hafa í huga í því samhengi að við erum að glíma við skipulagða brotastarfsemi. Þó að vissulega þurfi alltaf að hafa hugann við það á ákveðnum sviðum að skerpa mögulega á viðurlögum, skerpa á refsiheimildum o.s.frv., þá er vandinn ekki löggjöfin heldur eftirlitið. Vandinn er að við erum með aðila sem eru að brjóta núgildandi löggjöf og ég myndi segja af hreinum ásetningi. Þess vegna kallaði ég þetta ásetningsbrot, skipulagða brotastarfsemi. Hún verður ekkert upprætt nema með, ég myndi segja, bókstaflegum ofsóknum í eftirliti. Það er það sem ég sakna dálítið úr skýrslu starfshóps hæstv. ráðherra, mér finnst of lítið tekið á eftirlitsþættinum þar, enn og aftur. Það hefur hvorki komið fram í þessari umræðu né í máli ráðherra hvort þar sé nægilega gætt að málum og nægilega mikið fjármagn tryggt til að hægt sé að sinna því eftirliti sem nauðsynlegt er til að uppræta þetta.

Þar liggur vandinn okkar á endanum. Lausnin felst ekki í því að þrengja með flóknu regluverki að þeim fyrirtækjum sem þegar fara að lögum heldur að uppræta starfsemi þeirra fyrirtækja sem ekki fara að núgildandi löggjöf. Við höfum lagaheimildir til staðar og ég vil sér í lagi minna á í tengslum við mansalsmálin sem rædd hafa verið að bent (Forseti hringir.) hefur verið á heimildir í núgildandi lögum sem hægt væri að beita, eins og 253. gr. hegningarlaganna (Forseti hringir.) um að misnota þekkingarleysi eða veika stöðu fólks í hagnýtingarskyni.