149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrirspurnina sem er um mikilvægt mál en ekki óumdeilt. Ég fagna sérstaklega þessu tækifæri til að ræða málefnið út frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar. Til að byrja með tel ég rétt að taka fram, samhengisins vegna, að ég tel þá ákvörðun að heimila áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu næstu fimm ár eðlilega í ljósi þeirrar vísindalegu ráðgjafar sem hún er byggð á, ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Hvalveiðar Íslendinga byggja á meginreglunni um sjálfbæra nýtingu á lifandi auðlindum í hafi og á Íslandsmiðum er einungis veitt úr stofnum sem eru í góðu ástandi. Við ákvarðanir um hvalveiðar er farið eftir vísindalegri ráðgjöf. Það er strangt eftirlit með þeim og þær eru í samræmi við alþjóðalög. Ég er enn fremur almennt þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að takmarka atvinnufrelsi fólks þegar við höfum vísindin á bak við okkur. Þá þarf að minnsta kosti meira að koma til.

Hvalir eru svo sannarlega mikilvægt aðdráttarafl fyrir ferðamenn hér á landi en ekki hefur verið sýnt fram á að hvalveiðar Íslendinga hafi neikvæð áhrif á komur ferðamanna hingað til lands né eftirspurn eftir hvalaskoðun. Ferðamönnum hefur þvert á móti fjölgað gríðarlega á síðasta áratug eða svo, eða að meðaltali yfir 20% á milli ára frá 2010, sem er langt yfir meðaltalsvöxt á heimsvísu. Ef við lítum lengra aftur fjölgaði ferðamönnum einnig þegar hvalveiðar voru stundaðar í vísindaskyni á seinni hluta níunda áratugar 20. aldar. Fyrirtækjum sem bjóða upp á hvalaskoðun hefur farið fjölgandi með árunum og hefur ferðamönnum sem fara í hvalaskoðun sömuleiðis fjölgað mikið. Samkvæmt samtökum hvalaskoðunarfyrirtækja, Icewhale, fóru rúmlega 345.000 farþegar í hvalaskoðun árið 2018, en til samanburðar voru þeir 115.500 árið 2010.

Hvað ímynd Íslands varðar markast hún að sjálfsögðu af ótalmörgum þáttum, bæði náttúrutengdum menningartengdum og fleiri til. Engar klárar vísbendingar eru um að hvalveiðar hafi haft neikvæð áhrif á ímynd Íslands sem áfangastaðar eða eftirspurn eftir íslenskum afurðum. Samkvæmt könnun Íslandsstofu í febrúar sl. meðal almennings á okkar meginmörkuðum í Evrópu og Norður-Ameríku sögðust um 70% svarenda vera með jákvætt viðhorf gagnvart Íslandi sem áfangastað og gagnvart vörum, þjónustu og vörumerkjum með íslenskum uppruna. Þetta er svipuð niðurstaða og hjá okkar samkeppnislöndum. Þá hefur þessi tala hækkað á milli ára. Staða ferðaþjónustunnar í dag er vissulega viðkvæm og farið að hægja á fjölgun ferðamanna og hafa margir þættir þar áhrif. Meðal skýringa er hátt gengi íslensku krónunnar sem gerir Ísland að dýrum áfangastað, fyrir utan aðra þætti sem almennt gera að verkum að Ísland er dýrt land. Erfiðleikar í flugrekstri sem draga úr framboði flugsæta til landsins sem og að talið er að umfjöllun um viðvarandi kjaradeilur hafi vissulega sín áhrif, að minnsta kosti til skemmri tíma.

Þó að hvalveiðar Íslendinga geti hugsanlega haft og hafi eflaust neikvæð áhrif á viðhorf einhverra til landsins — það er auðvitað augljóst að svo er og því finnur maður m.a. fyrir í gegnum samfélagsmiðla — og ákvarðanir þeirra um að sækja landið heim, er hæpið að fullyrða að það sé stóra ástæðan fyrir þessari skammtímaniðursveiflu nú. Ég vil líka taka það fram að langtímahorfur í ferðaþjónustu eru góðar, m.a. þar sem æ fleira fólk er á faraldsfæti í heiminum og kannanir sýna að ímynd Íslands sem áfangastaðar er mjög sterk. Einhverjar sérkannanir og athuganir hafa verið gerðar á áhrifum hvalveiða á ímynd Íslands og ferðaþjónustuna og efnahagslegum áhrifum á hvalaskoðunina í gegnum tíðina en þær hafa verið stopular og eru nú löngu orðnar úreltar. Það væri gott og gagnlegt að endurtaka slíkar kannanir og bæta greiningar til að hafa sem skýrasta heildarmynd. Ég tel sömuleiðis æskilegt að haft sé meira samráð við greinina varðandi þetta málefni til framtíðar.

Þó að ekki megi sjá af gögnum að hvalveiðar Íslendinga hafi haft áhrif til hins verra á ímynd landsins eða ferðaþjónustuna hingað til er að sjálfsögðu betra að vera vel vakandi fyrir þróun mála og almennt til gagns að hafa greiningar fyrir framan sig og að þær séu unnar jafnt og þétt og reglulega þannig að hægt sé að átta sig á áhrifum, heildarmynd. Mögulega kann það að hafa áhrif á frekari umræðu og ákvarðanatöku til framtíðar.