149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er um afar brýna fyrirspurn að ræða er varðar áhrif hvalveiða. Líkt og hv. þingmaður benti á var ekki haft samráð við hvalaskoðunarfyrirtæki eða fyrirtæki í ferðaþjónustu við gerð hinnar umdeildu skýrslu Hagfræðistofnunar sem sjávarútvegsráðherra leggur til grundvallar sinni ákvörðun. Því hefur verið mótmælt harðlega af Samtökum ferðaþjónustunnar og má líka nefna harðorða ályktun Hvalaskoðunarsamtaka Íslands frá 15. mars sl., þar sem skorað er á stjórnvöld að afturkalla reglugerð sjávarútvegsráðherra um að leyfa hvalveiðar. Samtökin ítreka líka kröfu sína um að raunverulegt hagsmunamat fari fram þar sem fullt tillit sé tekið til hagsmuna hvalaskoðunar, ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina áður en frekari hvalveiðar fari fram við Ísland.

Undir þetta tek ég og vona að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því líka, ekki bara í þágu umhverfis- og dýraverndunarsjónarmiða heldur líka í þágu þeirrar atvinnugreinar sem heyrir undir hennar ráðuneyti og má ekki við meiri skakkaföllum eða óvissu.

Herra forseti. Við þurfum að endurskoða fyrir alvöru stefnu Íslands í hvalveiðimálum og ekki á forsendum eins manns heldur á forsendum umhverfis- og dýraverndunarsjónarmiða og forsendum einnar af grunnatvinnustoðum okkar samfélags. Helst af öllu eigum við að hætta hvalveiðum strax árið 2019.