149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þingmönnum fyrir ágæta umræðu sem hefur þróast í bæði kunnuglegar og óvæntar áttir. Í þessu máli hafa tilfinningarök verið dálítið ráðandi og menn ekki gefið því nægilegan gaum að þetta á að snúast annars vegar um vistfræði og náttúruvernd og hins vegar um beinharða hagsmuni.

Stærsti hagsmunaaðili þessa máls eru hvalaskoðunarfyrirtæki. Það er ekki hægt að koma upp í ræðustól og láta eins og hvalaskoðunarfyrirtæki hafi ekkert um málið að segja eða hafi ekkert vit á því, séu bara á villigötum. Við verðum einfaldlega að hlusta á þau fyrirtæki og við verðum að hlusta á Samtök ferðaþjónustunnar, vegna þess að það er óvart stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Það eru raunar fleiri atvinnuvegir sem þarna koma við sögu. Augljóst er að hvalveiðar Íslendinga hafa staðið markaðssetningu á íslensku lambakjöti í Bandaríkjunum stórkostlega fyrir þrifum. Bandaríkjamenn líta hvalveiðar upp til hópa sömu augum og verslun með fílabein. Þeim kann að skjátlast í því. En svona lítur heimurinn á þetta almennt.

Þess má raunar geta í því sambandi að hvalir, sem eru vel að merkja spendýr en ekki fiskar, eru dýr sem fara um allan heiminn og eru ekki staðbundnir. Þeir eru ekki bundnir við íslenska landhelgi heldur fara um heiminn og þar með ber að líta á þá sem í heild.

Það þarf að líta á þetta út frá þremur stoðum sjálfbærninnar, ekki því hvort nóg sé af hvölum hér við land, sem er raunar umdeilt og umdeilanlegt, og huga þarf (Forseti hringir.) að því hvort það séu þjóðarhagsmunir í því fólgnir að veiða hvali. Ég tel svo ekki vera.