149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:18]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni að umræður um þetta mál eru oft keyrðar á tilfinningum á báða bóga, að kjötið sé gott eða ekki og enginn skuli segja okkur fyrir verkum og hér sé fullvalda þjóð að taka sínar ákvarðanir, en það er líka stundum á hinn veginn og einhverjir halda því væntanlega fram að stærsti hagsmunaaðilinn í þessu máli séu hvalirnir sjálfir.

Mig langar að bæta því við í lokin að því verður ekki neitað að hvalveiðar hafa áhrif á ímynd landsins. Hvalveiðar eru vissulega umdeilt mál í alþjóðasamfélagi. Vinaþjóðir okkar hafa gagnrýnt þær. Ýmis umhverfissamtök berjast gegn þeim og segja má að almenningsálitið úti í heimi hafi almennt ekki verið slíku hliðhollt. Það hefur á stundum verið áskorun að gæta viðskiptalegra hagsmuna til skemmri tíma, einkum varðandi útflutning á íslenskum sjávarafurðum, en hingað til er ekki talið að um verulegt tjón á hagsmunum Íslands hafi verið að ræða. Stjórnvöld hafa enda ávallt brugðist við gagnrýni með skilvirkri upplýsingagjöf og vísað í vísindaleg gögn og að farið sé eftir alþjóðalögum.

Reynsla undanfarinna áratuga hefur enn fremur sýnt að atvinnugreinarnar, hvalveiðar og hvalaskoðun, útiloka alls ekki hvor aðra og þær geta lifað hlið við hlið með góðu samstarfi við hlutaðeigandi. Þannig hefur reynslan einnig verið í öðrum löndum þar sem hvalaskoðun og hvalveiðar þrífast hlið við hlið. Til að draga allra mest úr líkum á árekstrum á milli hvalaskoðunar og hvalveiða hér á landi hefur ákveðnum verndarsvæðum verið úthlutað til hvalaskoðunar. Til að mynda hafa hvalveiðar verið bannaðar á hluta af Faxaflóa, í Eyjafirði og Skjálfandaflóa frá nóvember 2017.

Ég er þeirrar skoðunar að þessar tvær atvinnugreinar, hvalveiðar og hvalaskoðun, geti starfað áfram samhliða með samráði. Það er þó eins og víðast hvar betra að byggja á haldgóðum rannsóknum og upplýsingastarfi svo að við höfum staðreyndir í höndunum og minna af tilfinningum til að taka mið af. Ég ítreka í því ljósi að ég hef áhuga á að fara í slíka (Forseti hringir.) greiningarvinnu í samráði við greinina, því að það skiptir máli að vera vel vakandi fyrir þróun mála og huga að heildarmyndinni hvað þetta varðar.