149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

hvalir.

611. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lagði fram aðra fyrirspurn um ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að heimila áframhaldandi hvalveiðar hér áðan til hæstv. ráðherra nýsköpunar og ferðamála. Þar spunnust af fjörugar umræður þar sem m.a. kom fram að hvalir væru fiskar, allir þeir sem hefðu sporð væru fiskar, hvalir væru góðir á bragðið og ýmislegt annað athyglisvert kom í ljós.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er samsteypustjórn margra flokka, en mér finnst samt ástæða til að fá fram mat hæstv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála í þessu máli.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji það í fyrsta lagi verjandi að heimilaðar hafi verið veiðar á 209 langreyðum og 217 hrefnum í ljósi þeirra upplýsinga frá Hafrannsóknastofnun að hrefnu hafi fækkað mikið á grunnsævi við Ísland frá síðustu aldamótum.

Það hafa verið færð sannfærandi rök fyrir því að hlýnun sjávar hafi valdið hruni sandsílastofnsins og hruni lundastofnsins og kríustofnsins og hrakið hrefnuna til Jan Mayen. Í því ljósi tel ég óábyrgt að leyfa veiðar á 207 hrefnum og 209 langreyðum, enda vitum við ekkert um það hvernig þessum villtu spendýrum reiðir af í hlýnandi og súrnandi hafi.

Í öðru lagi spyr ég hvort ráðherra telji ástæðu til að skoða breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þannig að hvalir falli þar líka undir.

Það fer ekkert á milli mála að það hefur orðið mikil breyting á viðhorfi landsmanna til hvalveiða og náttúruverndar almennt á undanförnum áratugum og æ fleira fólk sem áttar sig á því hversu stórt og mikilvægt tákn fyrir náttúruvernd hvalurinn er. Í þessu sambandi má líka hafa í huga að hvalveiðar hafa þvælst fyrir málstað Íslands á alþjóðavettvangi þegar kemur að málefnum hafsins og gert það að verkum að erfiðara er fyrir Íslendinga að vera leiðandi í góðri og ábyrgri umgengni við auðlindir hafsins. Ógnir af völdum hlýnandi loftslags og súrnun sjávar gera það líka að verkum að ástæða er til að velta því fyrir sér hvort hagsmunir Íslendinga kunni kannski að felast í því að vernda alla hvali.