151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[04:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þrjár vikur eftir að héraðsdómur felldi reglugerð heilbrigðisráðherra úr gildi sat ríkisstjórnin með hendur í skauti. Það var ekki fyrr en Samfylkingin lagði fram frumvarp sem hefði skotið lagastoð undir nauðsynlega reglugerð ráðherra að ríkisstjórnin bærði loks á sér og hljóp til. Í gær var því mælt fyrir tveimur frumvörpum um breytingar á sóttvarnalögum, annars vegar frá Samfylkingunni og hins vegar frá ríkisstjórninni. Á meðan frumvarp Samfylkingarinnar tryggir sóttvarnayfirvöldum og ráðherra nægilega rúmar heimildir, fullnægjandi skýrleika og nauðsynlegan fyrirsjáanleika, gerir frumvarp ríkisstjórnarinnar ekki ráð fyrir neinu af þessu. Ofan í kaupið velur ríkisstjórnin að endurskilgreina áhættumat sem alþjóðleg samstaða ríkir þó um og tímamörk eru allt of naum. Ég get því á engan hátt, og Samfylkingin ekki heldur, stutt frumvarp ríkisstjórnarinnar. Og mér finnst sorglegt að sundurlyndi ríkisstjórnarinnar komi í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir á þessum tímum.