152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[15:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta mál var kallað inn milli 2. og 3. umr. af framsögumanni nefndarinnar vegna þeirrar umræðu og athugasemda sem laganefnd Lögmannafélagsins gerði m.a. við það. Tilurð málsins er ábending GRECO um að sjálfstæði Félagsdóms, óhlutdrægni og gagnsæi skuli vera ótvírætt. Ég nefndi það í gær að vert sé að skoða ýmislegt betur, bera undir GRECO og ræða betur við laganefnd Lögmannafélagsins, til dæmis er varðar tímalengd skipana sem er mismunandi eftir hvaðan tilnefningar koma, til dæmis frá Hæstarétti, að Hæstiréttur sé að tilnefna í dóminn og fleira. Því er gott að nefndin ætlar að taka málið aftur inn. Ég held að það sé mikilvægt að spyrja GRECO, fá ráð hjá GRECO. (Forseti hringir.) Drjúgur tími er til stefnu og ég held það sé betra að við gerum þetta vandlega.