152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um stjórn Landspítala. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, sem hafa það að markmiði að skipa faglega stjórn yfir Landspítala að norrænni fyrirmynd. Markmið frumvarpsins er að styrkja stjórn Landspítala sem er stærsta heilbrigðisstofnun landsins, bæði út á við og inn á við, með því að lögfesta það fyrirkomulag að stjórn verði skipuð yfir spítalann sem gegni því hlutverki að tryggja frekar faglegan rekstur spítalans.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og fór yfir umsagnir sem henni bárust. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi á þingskjali. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta nokkur atriði sérstaklega.

Nefndin ræddi ýmis sjónarmið varðandi tilnefningu og skipan stjórnarmanna og áheyrnarfulltrúa en frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um hlutverk og ábyrgð stjórnar. Auk þess er gert ráð fyrir að ráðherra setji stjórninni erindisbréf og ákveði þóknun til stjórnarmanna sem skuli greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.

Í því sambandi leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðuneytið hafi í huga að æskilegt væri að áheyrnarfulltrúar verði skipaðir að fenginni tilnefningu starfsmannasamtaka innan spítalans og áskilið verði að áheyrnarfulltrúar í stjórn geti ekki gegnt stjórnunarstöðu innan spítalans samtímis því hlutverki að vera fulltrúar starfsmanna á stjórnarfundum. Þá bendir meiri hlutinn á að eðlilegt væri að gera ríkar hæfniskröfur til stjórnarmanna en ekki þó ríkari kröfur en mælt er fyrir um í hlutafélagalögum.

Í 3. málslið 1. efnisgreinar 1. gr. frumvarpsins kemur fram að í stjórn skuli sitja einstaklingar sem m.a. hafi þekkingu á vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þessa ákvæðis en bent var á að Háskóli Íslands væri sá aðili sem hefði allar þessar grunngreinar sem krefjast starfsleyfis sem og vísindagreinarnar og ætti þar af leiðandi að eiga fulltrúa eða sæti í stjórn. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að við skipan stjórnar verði lögð áhersla á að tryggja að þar verði til staðar þekking og sýn á vísindi, nám og nýliðun heilbrigðisstétta, eins og kemur raunar fram í greinargerð.

Með lögum nr. 91/2020, um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, kom inn nýtt ákvæði um fagráð sem forstjóri heilbrigðisstofnunar skipar og ber forstjóra heilbrigðisstofnunar að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunar, en fagráðin eru þá skipuð úr hópi starfsmanna í mismunandi faggreinum innan viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Sett hefur verið reglugerð 1111/2020 sem fjallar nánar um skipun fagráðanna. Með 4. gr. þess frumvarps sem við fjöllum um hér er lagt til að ráðherra skipi notendaráð. Í ráðinu verði sjö fulltrúar notenda sem skipaðir verði samkvæmt tilnefningu starfandi sjúklingasamtaka. Er notendaráði ætlað að veita forstjórum heilbrigðisstofnunar, og stjórn þegar það á við, ráðgjöf og aðhald með virku samráði til að tryggja að sjónarmið notenda komi til skoðunar við ákvarðanatöku um skipulag og rekstur heilbrigðisstofnana.

Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni frá sjúklingasamtökum um að samráð við stjórn tryggði ekki raunverulega aðkomu notenda með sama hætti og bein aðkoma að stjórn og skyldur til samráðs væru ekki nægilega vel skilgreindar.

Meiri hlutinn álítur það nýmæli frumvarpsins að skipa skuli notendaráð ákaflega mikilvægt og leggur áherslu á að við setningu reglugerðar um hlutverk og ábyrgð stjórnar og erindisbréfs stjórnar verði skyldur stjórnar til samráðs við notendaráð nánar skilgreindar.

Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðuneytis og ráðherra að tiltekin verði ákveðin verkefni og/eða tilvik sem stjórninni beri að hafa samráð við notendaráð um, til að afmarka þetta hlutverk betur.

Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að notendaráð hafi reglulegt umsagnarhlutverk um áætlanir er varða sjúklinga og leggur áherslu á að stjórn hafi samráð við notendaráð við ákvarðanatöku um atriði sem varða sérstaklega hagsmuni sjúklinga.

Að lokum telur meiri hlutinn eðlilegt að ráðuneytið fylgist með reynslunni af samráði stjórnar við fagráð sem nýlega voru sett á laggirnar, eins og áður sagði, og notendaráð sem verður sett á laggirnar verði frumvarp þetta að lögum og að ráðherra beiti reglugerðarheimildum til að tryggja markmið um að virkt samráð náist. Þá hvetur meiri hlutinn heilbrigðisráðuneytið til að fylgjast með þróun samráðs stjórnenda, starfsmanna og notenda alþjóðlega og leggur áherslu á að ef reynslan leiði í ljós að aðrar leiðir til samráðs en þær sem hér er lagt upp með séu heppilegri verði farið í frekari lagabreytingar.

Vík ég þá að breytingartillögu nefndarinnar. Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til breytingu er varðar áheyrnarfulltrúa. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að óvenjulegt væri að fulltrúar í stjórn sem ekki hafa atkvæðisrétt teljist stjórnarmenn en ekki áheyrnarfulltrúar. Meiri hlutinn telur þessa hugtakanotkun geta leitt til misskilnings og leggur því til breytingu þess efnis að fulltrúar starfsmanna fái heitið áheyrnarfulltrúar.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar aðkomu stjórnar að ráðningu forstjóra. Á fundum nefndarinnar kom fram að við gerð frumvarpsins hefði komið til álita að skilgreina aðkomu stjórnar að ráðningu forstjóra og meiri hlutinn telur að til að markmið frumvarpsins náist þurfi stjórn að hafa aðkomu að ráðningu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að aðkoma stjórnar að ráðningu forstjóra með þeim hætti sem hér er lagt til skýri samspil og ábyrgð stjórnar, forstjóra og ráðherra. Meiri hlutinn leggur því til að við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður um að ráðherra skipi forstjóra Landspítala til fimm ára í senn „að fengnum tillögum stjórnar“, það er tillagan sem meiri hlutinn leggur til.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar sem eru tæknilegs eðlis sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í nefndaráliti. Undir álit meiri hluta velferðarnefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Óli Björn Kárason.

Virðulegi forseti. Nokkur orð í viðbót: Ég hef gert grein fyrir áliti meiri hluta velferðarnefndar varðandi nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um stjórn Landspítala. Ég vil að lokum árétta að í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að staða og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verði styrkt. Í þeim tilgangi verði fagleg stjórn skipuð yfir spítalann að norrænni fyrirmynd. Þess vegna eru með þessu frumvarpi lagðar til þær breytingar sem hér hafa verið raktar og þar með er ætlunin að setja á stjórn sem styrkir spítalann í hlutverki sínu sem stærsta heilbrigðisstofnun landsins. Sú sem hér stendur hefur miklar væntingar til þess að fagleg stjórn efli Landspítalann í að sinna hlutverki sínu.