152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[19:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir fyrirspurnina. Já, þetta er stóra spurningin og þetta á við svo ótrúlega margt í núverandi fjármálaáætlun stjórnvalda sem er ekkert annað en plagg sem hefur verið framreiknað miðað við fólksfjölgun, ekki einu sinni að fullu en að einhverju leyti, bara svona kerfislægar tölur. Það er eiginlega engin pólitísk stefnumótun í þessu plaggi.

Það sem kemur auðvitað á óvart er þegar maður heyrir misræmi, ekki bara í orðræðu hæstv. ráðherra út á við sem tala um að verið sé að ráðast í átak, verið sé að styrkja stöðu hjúkrunarheimila. Það er verið að stæra sig af því að settur hafi verið aukamilljarður í rekstur hjúkrunarheimila rétt fyrir jólahlé, því að þau voru að lenda í gríðarlegum vanda, í staðinn fyrir að laga bara grunnvandann. Það liggur líka fyrir í samræðum við heilbrigðisráðuneytið að þau eru jafn hissa og við að búið sé að taka þessar upphæðir út. Það lá alltaf fyrir að það ætti að vera til fjármagn fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma út þetta kjörtímabil vegna þess að það stendur í stjórnarsáttmála, þar er talað um að það sé langtímaplanið að bæta önnur úrræði. Vandinn er sá að fjármálaáætlun og stefna hins opinbera, þegar kemur að rekstri ríkissjóðs, er mótuð í mjög þröngum römmum í fjármálaráðuneytinu. Hún er ekki unnin með þeim hætti að fólkið sem hefur sérþekkinguna innan heilbrigðisráðuneytisins eða innviðaráðuneytisins, eða hvað svo sem á við, komi saman og kostnaðarmeti ákveðin úrræði til lengri tíma og segi: Þetta er það sem við þurfum að gera, m.a. til að spara kostnað á Landspítalanum til 10, 15, 20 ára. Þess vegna þurfum við þetta fjármagn núna. Nei, hæstv. fjármálaráðherra hefur ákveðið að útgjöld megi bara vaxa um x prósent á ári. Hann treystir sér ekki til að eiga við tekjuhliðina og þá vanfjármagnar hann einfaldlega þær nauðsynlegu beiðnir sem liggja fyrir í kerfinu. Það er einfaldlega svarið.