Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

vextir og verðbólga.

175. mál
[18:05]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er spurt um muninn á íslensku og dönsku efnahagsumhverfi og þar er einn stór munur á og það er verðtryggingin sem við búum við. Það er eiginlega fíllinn í stofunni vegna þess að verðtrygging 101 er bara þannig að á meðan hún er við lýði þá virkar ekki stýritæki Seðlabanka Íslands, sem er vaxtahækkunin, sem skyldi þannig að Seðlabankinn þarf stöðugt að beita því með mun grófari hætti heldur en tíðkast annars staðar og í stærri stökkum. Við erum að horfa á þetta núna. Það hefur svo þær afleiðingar að fólk er að fara aftur yfir í verðtryggð lán þannig að við erum að viðhalda þessu ástandi. Við erum að búa til ástand þar sem við viðhöldum þessu. Þetta er eitthvað sem verður að fara að huga að vegna þess að verðtryggingin er okkur alveg gríðarlega dýr og á eftir að verða dýrari ef svo fer fram sem horfir á næstu árum.