Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

vextir og verðbólga.

175. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Já, það á ekki að koma forsætisráðherra á óvart að auðvitað er maður á endanum að tala um gjaldmiðilinn. Það er bara þannig. Það er pólitísk ákvörðun að láta ungt fólk bera þyngstu byrðarnar vegna verðbólgunnar því það er hópurinn sem er bundinn innan krónuhagkerfisins, undir þessum krónusköttum, meðan þriðjungur af hagkerfinu, stóru útflutningsfyrirtækin og fleiri, er þar sem vaxtahækkanir Seðlabankans bíta ekki. Ég er alls ekki á móti því að þriðjungur geri upp í evrum. Ég vil bara að allir fái að gera upp í evrum. Það er ekkert réttlæti fólgið í því, talandi um Danmörku, að þar er fólk að borga íbúð sem fjárfest er í einu og hálfu sinni meðan við Íslendingar erum næstum því að borga hana þrisvar sinnum. Það er ekkert réttlæti. Við verðum að fara að þora að tala um nákvæmlega fílinn í stofunni sem er íslenska krónan. Auðvitað er þetta ekki bara gjaldmiðillinn, það þarf aga í hagstjórn. Kannski er það það sem ríkisstjórnin óttast þegar við erum að sjá þessa stanslausu útgjaldaþenslu. (Forseti hringir.) Það er líka rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir: Við þurfum að huga að fyrirkomulaginu og ekki bara huga að því, við þurfum að breyta fyrirkomulaginu á vinnumarkaði, hvernig módel við viljum þar. Ég tel einsýnt að við eigum að líta til Norðurlandanna þegar kemur að stórum ramma og reyna að auka fyrirsjáanleika þegar kemur að ákvarðanatöku hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það mun hafa áhrif á hvernig ríkisfjármálin eru rekin til lengri og skemmri tíma.

Á endanum snýst þetta um réttlæti. Þetta snýst um það að vaxtabyrðin sem er sett núna á almenning í landinu í gegnum vaxtastýritæki Seðlabankans bitnar aðeins á þeim sem eru með gömlu krónuna, annars vegar óverðtryggðu krónuna og síðan hvernig verðtryggðu lánin snúast upp í andhverfu sína og við sjáum fólk jafnvel vera að missa allt. Við hljótum að þurfa einhvern tímann að fara að taka á þessu. Það er ekki eðlilegt að við þurfum að búa við þrisvar til fjórum sinnum (Forseti hringir.) hærra vaxtastig hér á Íslandi miðað við þær þjóðir sem við viljum alla jafna bera okkur saman við og eru að berjast við svipað háa verðbólgu. (Forseti hringir.) Það er ekkert réttlæti í því að bara hluti almennings beri þetta, ekki síst ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Við erum að setja þetta á þeirra herðar, ekki annarra.