Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

vextir og verðbólga.

175. mál
[18:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við getum lengi deilt um þetta. Við getum líka deilt um það sem ég fór yfir áðan, að laun hafa hækkað miklu meira hér en á evrusvæðinu og kannski finnst einhverjum á evrusvæðinu bara ekkert réttlæti í því að hér séu miklu betri laun og miklu betri lífskjör en víðast hvar á evrusvæðinu. Við getum líka rætt um það að verðbólgan fer mjög misjafnlega með Evrópu. Öll þessi umræða sem við höfum átt — í ágætri skýrslu frá 2018 sem ég vísaði til áðan er farið yfir allt sem gert hefur verið hér í 100 ára sögu fullveldisins. Það er myntbandalag, það er gullfótur, það er fastgengi með höftum, fastgengissamstarf, peningamagnsmarkmið, raungengismarkmið, skriðgengi, fastgengi, allt sem við erum búin að ganga í gegnum. (ÞKG: Íslenska krónan er búin að missa 99% af verðgildi sínu.) Það jákvæða er að við erum stödd þar að ég held að flest fallist á það að það eru engar skyndilausnir. Það er ekki í boði að taka einhliða upp einhvern gjaldmiðil án þess að vera með skýran bakhjarl. Það eru bara tveir valkostir. Það sem ég er að segja skýrt er að Ísland, þegar við horfum á lífskjör, þegar við horfum á launakjör, jöfnuð og velsæld, stendur bara mjög vel. Og hitt sem ég vil segja er að innganga í Evrópusambandið, sem ég get borið fulla virðingu fyrir að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar setji á dagskrá, felur í sér miklu meira en bara að verða aðili að myntbandalagi og taka upp nýjan gjaldmiðil. Hún er risastór pólitísk ákvörðun sem þarf miklu meiri umræðu.

En ég vil hins vegar segja að öll þessi umræða þar sem við erum búin að fara í gegnum þessa valkosti hefur, finnst mér, fært umræðuna fram á við og ég held líka að okkur hafi lánast betur að koma bæði skýrari sýn og stefnumótun í ríkisfjármálin. Ég vil líka trúa því, þó að það sé í tísku að tala niður vinnumarkaðinn, að mjög margt jákvætt hafi gerst í þróun mála aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á undanförnum árum sem ég trúi að eigi eftir að verða til framfara til lengri tíma litið í því að tryggja hér efnahagslega velsæld og stöðugleika.