Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

þróunarsamvinna.

492. mál
[18:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Stefna Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023 rennur sitt skeið í lok þessa árs og vinna er yfirstandandi við undirbúning nýrrar stefnu 2024–2028 sem verður lögð fyrir á haustþingi. Mikilvægt innlegg í stefnumótunarvinnuna er niðurstaða úr jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD, sem við köllum í daglegu tali DAC-nefndina. Hún fór fram í október í fyrra, 2022, og verður formlega tekin fyrir í nefndinni 3. apríl nk. Þessi jafningjarýni byggist á ítarlegu mati á stefnu og starfi Íslands og þar verða veitt tilmæli um það sem betur mætti fara í þróunarsamvinnu okkar, svo sem hvað varðar áherslur, framkvæmd og eftirfylgni, sem er hluti af því sem hv. þingmaður spyr um. Ég veit að þessi jafningjarýni hefur verið okkur gríðarlega dýrmæt, bæði það að fara í gegnum alla vinnuna með þessum sérfræðingum og þessu fólki, láta þau skoða alveg á dýptina hvað við erum að gera, hvernig við erum að gera það og svo í leiðinni að fá út úr því hvað má betur fara og hvað er að ganga vel og geta þá tekið ákvarðanir út frá því og bætt okkur.

Rýniskýrslan barst ráðuneytinu 13. mars sl. og hún mun nýtast vel í vinnunni sem er fram undan. Þar er m.a. áréttað mikilvægi þess að Ísland haldi skýrum fókus í starfinu enda hafi það gefist vel og reynst árangursríkt fyrir lítið framlagsríki eins og Ísland. Það má kannski segja að vegna þess að við erum ekki stærri en við erum þá séu þar af leiðandi framlögin í samræmi við það. Auðvitað eiga allir að vera með stífar kröfur en það er jafnvel enn meiri krafa á okkur að við nýtum þá fjármuni eins vel og kostur er.

Málefnahópur innan ráðuneytisins rýnir núgildandi stefnu með tilliti til helstu áskorana á alþjóðavettvangi, áherslna Íslands og reynslu af þróunarsamvinnu Íslands síðastliðin ár. Það er alveg ljóst að þróunarríkin glíma við fjölþættar og krefjandi áskoranir. Nú blasir t.d. við sárafátækt í heiminum er farin að aukast í fyrsta skipti í tvo áratugi. Ég held að þótt við hér ein breytum ekki heiminum þá erum við þátttakendur í því að horfast í augu við það að kerfið sem við höfum búið til er kannski ekki nægilega vel í stakk búið til að takast á við margs konar ógnir og krísur sem ekkert lát virðist vera á. Það að við séum að horfa upp á að sárafátækt sé aukast í fyrsta skipti í tvo áratugi er ótrúlega sárt, að sjá svona skref aftur á bak en ekki fram á veginn.

Þróunarsamvinnunefnd, sem sinnir ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands samkvæmt lögum, óskaði eftir að koma snemma að undirbúningi stefnunnar. Hinn 20. janúar sl. hélt nefndin starfsdag sem tileinkaður var nýju stefnunni og skilaði tillögum til ráðherra sem innlegg í þessa stefnumótunarvinnu. Þróunarsamvinnunefnd mun taka drögin til umfjöllunar á öðrum fundi þegar þau liggja fyrir og umsögn nefndarinnar fylgja drögum að þingsályktunartillögu til Alþingis. Samhliða mótun nýrrar stefnu er fyrirhugað samráð við helstu hagsmunaaðila á Íslandi, svo sem borgarasamfélag, félagasamtök, fræðasamfélag, atvinnulíf, fulltrúa yngri kynslóðarinnar og aðra sem að málaflokknum koma. Þar á meðal eru í undirbúningi samráðsfundir við helstu hagsmunaaðila. Þar verður leitast við að ná til fjölbreyttra aðila sem að málaflokknum koma og er vonast eftir markvissum umræðum þannig að samráðið komi að sem bestu gagni við stefnumótunarvinnuna. Hún mun taka mið af núgildandi stefnu þar sem lögð er áhersla á friðsamlegar lausnir, uppbyggingu félagslegra innviða, verndun jarðarinnar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, jafnrétti kynjanna og mannréttindi, sem eru sömu þættir og hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu. Það má gera ráð fyrir stóraukinni áherslu á loftslagsmál í þróunarsamvinnunni, ekki síst á sviði sjálfbærrar orku og íslenskrar þekkingar í þeim málaflokkum. Leitað verður leiða við að takast á við spillingu, sem við vitum að er gríðarlega mikið vandamál í þeim löndum sem við eigum í samstarfi við í þróunarsamvinnu, og leitað leiða sem stuðla að jöfnuði og auka og tryggja viðnám samfélaga með tilliti til efnahags- og félagslegrar uppbyggingar. Lögð er áhersla á tengslin milli mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðar en þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur farið ört vaxandi á undanförnum misserum og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. (Forseti hringir.) Við munum áfram leita ólíkra leiða við framkvæmd þróunarsamvinnu, þ.e. bæði í fjölþjóðlegu samstarfi, tvíhliða samstarfi, samstarfi við félagasamtök, aðila atvinnulífsins og í gegnum skóla GRÓ.