Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

þróunarsamvinna.

492. mál
[18:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að vekja máls á þessu og einnig að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirlit yfir hvað er verið að skoða. Mig langaði að nefna þrjú atriði hér á þessum stutta tíma sem ég hef. Í fyrsta lagi mun koma fram í næstu viku fjármálaáætlun fyrir næstu ár og mig langar að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvort einhver plön séu um að hækka úr 0,35% til þróunarsamvinnu upp í markmiðið sem er 0,7. Hins vegar langar mig að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til þess að auka hlut frjálsra félagasamtaka og hvernig þau eru nýtt í þessu mikilvæga starfi. Að lokum langaði mig að nefna það sem hæstv. ráðherra talaði um, starfsdag þróunarsamvinnunefndar, og langar að hvetja ráðherra til að nýta þróunarsamvinnunefnd betur til að fá fleiri upplýsingar um þetta. Að lokum langar mig að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt til fjármagn vegna fellibylsins Freddy í Malaví.