Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

fulltrúar í starfshópi um stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála.

177. mál
[18:32]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur kærlega fyrir fyrirspurnina. Hún er fremst í flokki þeirra sem er mjög umhugað um það sem er að gerast í hagkerfinu okkar og hefur sinnt samkeppnismálum ötullega. Hún spyr núna um ástæður þess að fulltrúar neytenda eigi ekki sæti í starfshópi sem skoðar breytingu á stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála á Íslandi. Því er til að svara að á undanförnum árum hefur verið gert átak í því að leita leiða til þess að fækka einingum í ríkisrekstri og stækka þær í því skyni að auka hagkvæmni í ríkisrekstri, bæta þjónustu og gera störfin skilvirkari. Reynslan af sameiningu opinberra stofnana hér á landi hefur sýnt að talsverð samlegðaráhrif geta verið af slíkum sameiningum í húsnæði, mannahaldi og í stoðþjónustu. Auk hagkvæmnissjónarmiða er einnig ljóst að stærri stofnanir hafa meiri getu til að takast á við erfið viðfangsefni og þeim er frekar unnt að marka sér sterka stöðu til að fylgja eftir lögbundnum verkefnum sínum.

Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem tók við völdum í nóvember 2021 er kveðið á um að stefnt verði að sameiningu Samkeppniseftirlits og Neytendastofu og að kannaðir verði eftir atvikum möguleikar á sameiningu við aðrar stofnanir sem aukið geti samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. Meginmarkmiðið er að styrkja samkeppni innan lands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Til að fylgja þessum áherslum í stjórnarsáttmála eftir var ákveðið að skipa starfshóp til að kanna stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála og hvernig sameining og samrekstur Samkeppniseftirlits og Neytendastofu gæti hugsanlega komið inn í stofnanakerfi ríkisins, þ.e. hvernig stjórnskipulagi neytenda- og samkeppnismála sé best fyrir komið innan stjórnsýslunnar. Starfshópnum er ætlað að skoða gildandi ákvæði laga sem um þessar stofnanir gilda með það fyrir augum að marka hugsanlegri nýrri stofnun stjórnskipulega stöðu. Ekki er í þessari vinnu sérstaklega horft til efnisreglna samkeppnis- eða neytendaréttar.

Þegar valið var í starfshópinn var verið að velja einstaklinga sem þekktu vel til opinberra stofnana og/eða höfðu reynslu af sameiningu þeirra og gætu metið hvernig nýrri stofnun yrði best komið fyrir í stofnanakerfi ríkisins. Verkefni starfshópsins snýr ekki að því að endurskipuleggja verkefni Samkeppniseftirlitsins eða Neytendastofu eða yfirfara efnislega löggjöf á þessu sviði. Því var við skipan starfshópsins ekki verið að skipa sérstaka fulltrúa þessara stofnana eða sérfróða aðila á sviði samkeppnis- eða neytendamála. Eins og fram kom í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 24. ágúst í fyrra er starfshópurinn skipaður þremur einstaklingum. Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, er formaður starfshópsins og var hann skipaður vegna lögfræðiþekkingar sinnar, dómarastarfa bæði í Hæstarétti og annars staðar, sem fyrrum ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis og vegna yfirgripsmikillar reynslu hans innan lands jafnt sem utan af stjórnsýslunni og verkefnum hennar. Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var skipuð í starfshópinn vegna þekkingar sinnar á starfsháttum stofnana og ráðuneyta í ljósi fyrri starfa hennar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem m.a. reyndi á sameiningu stofnana og vegna lögfræðiþekkingar hennar og þekkingar á stjórnskipan ríkisins. Angantýr Einarsson bæjarritari var skipaður í starfshópinn vegna þekkingar sinnar sem stjórnmálafræðingur á stjórnskipan ríkisins, vegna fyrri starfa þar sem reyndi á sameiningu stofnana og reynslu af störfum í fjármálaráðuneytinu og síðar fjármála- og efnahagsráðuneytinu og störfum erlendis í alþjóðastofnunum. Með starfshópnum starfar Harpa Theódórsdóttir, viðskiptafræðingur og sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Það má upplýsa um það hér að við undirbúning við skipan starfshópsins kom til athugunar að hafa forstjóra Neytendastofu og Samkeppniseftirlitsins ásamt ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytinu með í starfshópnum og að starfshópurinn yrði skipaður allt að sjö einstaklingum. Frá því var horfið að hafa starfshópinn það fjölmennan og í stað þess er starfshópurinn skipaður þremur einstaklingum. Í skipunarbréfi er lögð áhersla á að starfshópurinn hafi virkt samráð við helstu haghafa. Starfshópurinn hefur þannig fundað með forstöðumönnum viðkomandi stofnana og með fleiri hagaðilum á þessu sviði, t.d. Neytendasamtökunum. Starfshópnum er ætlað, auk samráðs við hagaðila, að kanna hvernig sambærilegum verkefnum er skipað í stjórnsýslunni í Danmörku og Noregi og eftir atvikum í fleiri löndum, til að mynda hvernig stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála sé best fyrir komið með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur á stjórnskipulagi sem þar er viðhaft.

Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að það er alveg á hreinu (Forseti hringir.) að ekki á nokkrum tímapunkti kemur það til greina að veikja Samkeppniseftirlitið eða Neytendastofu. (Forseti hringir.) Eins og staðan er í dag þá þurfum við virkilega að hafa fyrir því að halda niðri verðbólgu og tryggja samkeppni.