Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

fulltrúar í starfshópi um stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála.

177. mál
[18:38]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Neytendastofa er eina opinbera stofnunin sem sinnir neytendavernd. Þar ætti frekar að bæta í en nokkuð annað. Viðfangsefni Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu eru gjörólík. Annars vegar að stuðla að virkri samkeppni á neytendamarkaði í heild sinni, hins vegar að bregðast við óréttmætum viðskiptaháttum og brotum gegn réttindum neytenda. Nú hefur verið skipaður starfshópur um þessa stofnanaumgjörð án aðkomu neytendaverndarsamtaka en með aðkomu framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Samskipti stjórnvalda við hagsmunaverði eiga að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og jafnræði. Hvernig samræmist það þeim viðmiðum að útiloka fulltrúa neytenda frá aðkomu að starfshópi um stofnanaumgjörð neytendamála? Það má færa rök fyrir því að nær öll mál snerti hagsmuni neytenda með beinum eða óbeinum hætti og ég minni á að á Íslandi eru fjögur samtök neytenda en ekki bara eitt: Neytendasamtökin, sem sinna því sem snýr að vörum og þjónustu, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Samtök leigjenda og svo Hagsmunasamtök heimilanna, sem berjast fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði. Það ætti að heyra til undantekninga að fulltrúar þessara samtaka séu ekki í opinberum starfshópum eftir þeim málaflokkum sem þau sinna.