Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

fulltrúar í starfshópi um stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála.

177. mál
[18:39]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir þau sjónarmið sem komu fram í góðri ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hvað varðar neytenda- og samkeppnismál. Ég verð að segja að það kemur örlítið á óvart að einmitt þessi ágæti hæstv. ráðherra skuli undanskilja neytendur í þessari vinnu eða Neytendasamtökin, vegna þess að hún hefur verið svona ljósið í myrkri ríkisstjórnarinnar, vil ég segja, þegar kemur að því að hugsa um hag almennings. Hún hefur tekið fyrir og verið gagnrýnin á ofurhagnað bankanna. Hún hefur verið gagnrýnin á sölu Íslandsbanka og fleiri mál, sem ég vil segja að sé virkilega góð gagnrýni, einnig á gjaldtöku og arðsemi bankanna. Þannig að ég skora á hæstv. ráðherra að gera vel einnig í þessu máli. Ég geri mér vissulega grein fyrir því að staða hennar er þröng innan ríkisstjórnarinnar þar sem eina prósentið og hagsmunir þess virðast vera í algjöru fyrirrúmi. En mér finnst að neytendur og fulltrúar þeirra eigi heima í þessari vinnu.