Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

fulltrúar í starfshópi um stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála.

177. mál
[18:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ekki síst lokasetningu hennar, að hún muni gera allt til þess að tryggja samkeppni og tryggja sterkt samkeppniseftirlit til þess m.a. að berjast gegn verðbólgu. Ég er sannfærð um að þar sem samkeppni ríkir hér á Íslandi hefur það stuðlað að því að pottlokið hefur ekki farið af en þar sem er minni samkeppni og þar sem er fákeppni sjáum við að allt er að fara úr böndum. Þetta er algjört lykilatriði fyrir íslensk heimili, íslenska neytendur, að hafa í samfélaginu öflugt samkeppniseftirlit. En lái mér hver sem vill, þar sem maður hefur einhverja reynslu af því og hafandi heyrt hvernig flokkarnir hafa talað í gegnum tíðina gagnvart Samkeppniseftirlitinu, þá hef ég verulegar áhyggjur af því hver niðurstaðan verður. En ég verð að segja á móti að mér finnst mikilvægt að ráðherra hafi komið með þessa tóna inn, að það sé verið að tala alveg skýrt. Við ætlum ekki að draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu. Það sem ég hef verulegar áhyggjur af er að jafnvel ráðherrar fái ekki frið til að tala fyrir öflugu samkeppniseftirliti innan ríkisstjórnarflokkanna af því að hæstv. ráðherra hefur, eins og kom fram hérna áðan, stundum verið með mikilvægar yfirlýsingar á ákveðnum sviðum sem hafa ekkert endilega hentað öllum öðrum. Ég vil því brýna hæstv. ráðherra til dáða þegar verið að koma með tillögur um að draga úr samkeppni, hvort sem er í gegnum sérreglur og undanþágur frá samkeppnislögum eða með öðrum hætti, til að standa vaktina og segja: Við erum ekki að fara þangað. Við erum að efla samkeppni, við erum að gera það í þágu almennings og í þágu íslenskra heimila sem berjast sem aldrei fyrr, núna þegar matarkarfan til að mynda hækkar eins og enginn væri morgundagurinn og hluti af því sem við verðum að gera er að efla Samkeppniseftirlitið. Og bara þannig að það sé sagt hér: Ég mun hafa mjög mikið eftirlit með framkvæmdarvaldinu þegar kemur að þessu.