131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[11:36]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur fram í skýrslunni að lögð sé talsverð áhersla á lýðræðisnefndina en það er nefnd sem skipuð var í byrjun árs og var falið að rannsaka hvaða vandi steðji helst að norrænum lýðræðissamfélögum.

Þegar maður lítur yfir sviðið á Íslandi blasir náttúrlega við mjög mikill vandi og það er lýðræðisvandi, þ.e. hvað varðar leynileg fjármál stjórnmálaflokka. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni, sérstaklega í ljósi þess að formaður nefndarinnar er fyrrum alþingismaður og sagnfræðingur, Kristín Ástgeirsdóttir. Það er náttúrlega alveg óþolandi ástand og mjög sérstakt, og ég held að Ísland sé eiginlega eina ríkið í Evrópu sem kennir sig við lýðræði þar sem fjármál stjórnmálaflokka eru leynileg. Þess vegna væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort nefndin ætli að taka á því máli.

Eins eru önnur mál sem eins og lýðræðismálin skipta verulega miklu máli, t.d. eins og vísindasiðanefnd. Hún er flokkspólitísk á Íslandi. Það er auðvitað mjög sérstakt að siðanefnd í vísindum sé flokkspólitísk. Það væri líka fróðlegt að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort þetta sé eitt af verkefnum nefndarinnar.