132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðar- og bankamálaráðherra var með mjög alvarlegar yfirlýsingar hér áðan og vændi mig um að hafa falsað ummæli sín. Ég skal segja það hér, hæstv. forseti, að þetta er ekki það síðasta sem verður sagt um þetta mál því ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra finni orðum sínum stað. Hún talar jafnframt um það að við höldum fæla, eins og hún orðaði það, og að við höfum falsað þessa fæla. Ég er í fyrsta lagi að vísa hér í ummæli Ólafs Ólafssonar frá 10. janúar sl. sem ég fjallaði um á heimasíðu minni daginn eftir. Í annan stað eru þeir fælar, sem ráðherrann nefnir svo, samsöfnun á ummælum og mótsagnakenndum ummælum ráðherra Framsóknarflokksins í ýmsum málum, einnig á heimasíðu minni. Í fyrsta lagi um Íraksmálið, í öðru lagi um Ríkisútvarpið og í þriðja lagi um einkavæðingu á raforkugeiranum. Það sem ég gerði var að færa ummæli hæstv. ráðamanna og talsmanna Framsóknarflokksins orðrétt og nákvæmlega eins frá útskrift frá Ríkisútvarpinu yfir á heimasíðu mína.

Það er ekki einvörðungu þetta ja, já sem um er að ræða heldur efnisinnihald ummæla hæstv. ráðherra. Þar var ekkert um að villast hvað vakti fyrir ráðherranum, að verið væri að opna á einkavæðingu raforkugeirans, og við skulum fara yfir það aftur.

Síðan eru það hin makalausu ummæli forsætisráðherra sem segist ekki botna upp né niður í því sem hér sé að gerast. Það er ekkert undarlegt. Maðurinn hefur verið fjarri þessari umræðu. Hann segir að nú eigi að svara kalli tímans við endurskoðun á lögum sem sett voru á öndverðri 20. öld. Eigum við þá bara ekki að gera það? Eigum við ekki að svara kalli tímans (Forseti hringir.) og hlusta á hvað almannasamtök á Íslandi eru að segja og hvers þau eru að óska eftir við (Forseti hringir.) endurskoðun þessara laga?

(Forseti (SP): Sá tími er nú liðinn fyrir allnokkru sem ætlaður var til að ræða störf þingsins samkvæmt þingsköpum. Það eru nokkrir aðrir hv. þingmenn á mælendaskrá sem komast ekki að.)