132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hafa verið fluttar athyglisverðar smáræður í nokkuð langan tíma og þar á meðal flutti hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason þinginu hjartnæma hugvekju þar sem hann vitnaði í gamlan dægurlagatexta: Það er eins og gerst hefði í gær.

Þetta ætti að verða okkur tilefni til að láta hugann reika aftur í tímann t.d. til þess tíma þegar ákveðið var hér á þingi að stofna umhverfisráðuneyti. Það væri fróðlegt að vita hve langar ræðurnar voru fluttar af hálfu Sjálfstæðisflokksins, þingmanna hans, sem voru mjög andvígir því að hér yrði stofnað umhverfisráðuneyti í ríkisstjórninni. (Gripið fram í: Það var lesið upp úr bókum.) Það var lesið upp úr bókum og hugverkum, (Gripið fram í.) og ég man ekki betur en að einn þingmaður hafi talað í um tíu tíma svo vikið sé að ummælum hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur um tjáningarfrelsið og virðingu fyrir því, þá hefur það nú áður fyrr verið í hávegum haft hér á Alþingi og þá ekki síst af hálfu Sjálfstæðisflokksins, þingmanna hans, (Gripið fram í.) sem hafa flutt hér langar ræður.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um að guð forði okkur frá því að fara að laga þingskapalög að athyglisgáfu hv. þm. Péturs H. Blöndals sem hefur lýst því yfir að hann orki ekki að hlusta á ræðu lengur en tíu til fimmtán mínútur, þá tapi hann þræðinum og athyglisgáfan bresti hjá hv. þingmanni. Ég held að þetta sé undantekning á því sem almennt gerist. En hann hefur hvíslað því í eyra mér — af því að hann er vanur að vitna í prívatsamtöl á göngum í þinginu — að fræðimenn segi að þetta sé algengt að börn geti ekki hlustað lengur en í tíu, fimmtán mínútur án þess að athyglin bresti.

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að inna hæstv. forseta eftir því hve lengi standi til að halda þessum þingfundi áfram í dag og að því leyti tek ég undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er eðlilegt að þingheimur viti hve lengi þingfundir eigi að standa. Við óskum eftir því að fá upplýsingar um hve lengi þessi fundur eigi að standa því að það getur vel verið að eitthvert samhengi sé á milli þeirrar umræðu sem á sér stað hér um stjórn fundarins og (Gripið fram í: Og kosninganna í vor.) hins hve lengi þessi fundur yfirleitt stendur. Gætum við fengið upplýsingar um hvaða áform eru uppi í því efni?