133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:54]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er óneitanlega dálítið sérkennilegt að hefja utandagskrárumræðu um málefni einnar heilbrigðisstofnunar því að það sem á við þessa heilbrigðisstofnun á við allrar aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu. (Gripið fram í.) Það er mjög lítill vandi að halda því fram, og það geta allir gert á hverjum tíma, að til heilbrigðismála sé alltaf skortur á peningum. Auðvitað er það þannig og auðvitað verður það alltaf þannig. Það eru hins vegar herfilegar missagnir ef menn vilja meina það að þessi landshluti hafi fengið eitthvað minni hækkanir en aðrir. Sannleikurinn er sá að Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur mjög verið efld á undanförnum árum. Menn tóku þá ákvörðun fyrir 10 árum að sameina þar stofnanir í eina. Það kostaði mikil átök. Það hefur verið mjög vel að því staðið, það hefur verið mjög erfitt starf. Alþingi hefur fylgt því eftir með miklum fjárframlögum og það hefur gengið mjög vel og er ástæða til að vera ánægður með það.

Hins vegar mega menn vita að heilbrigðismál hjá landshlutunum úti í dreifbýlinu eru ekki alltaf spurning um hversu miklum peningum er hægt að koma þar í lóg. Það er spurning um stjórnun og hvernig að henni er staðið. Til allrar hamingju hefur þjónustan vaxið mjög mikið á Austurlandi á undanförnum árum. Það hefur verið vaxandi fjöldi farandsérfræðinga að störfum þarna. Þangað hefur komið mikið af nýjum tækjum og nýrri tækni sem hefur skilað íbúunum mjög bættri þjónustu. Þetta er eilíflega viðfangsefnið sem við þurfum alltaf að standa frammi fyrir og alltaf að vera reiðubúin fyrir vegna þess að eðlilegar kröfur í nútímaþjóðfélagi, sem er í örum vexti og miklum blóma, verða alltaf og eru alltaf um að reyna að bæta heilbrigðismálin eins og frekast er unnt og það verður gert og það hefur verið gert með miklum sóma.