133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:38]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Stuðningur Íslands við aðgerðir í Írak fólst í því, eins og iðulega hefur komið fram og trekk í trekk hefur komið fram í stöðugum umræðum um þetta mál á síðustu fjórum árum, að leyfa hér yfirflug og afnot af Keflavíkurflugvelli við liðsflutninga og standa að uppbyggingar- og endurreisnarstarfi í Írak að aðgerðum loknum.

Ég sat þann fund í ríkisstjórn Íslands þegar þetta var kynnt. Þetta var nákvæmlega sams konar ákvörðun og áður hafði verið tekin, t.d. um loftárásir í Kosovo sem voru fjórum árum þar á undan. Þannig var staðan þegar þessi ákvörðun var kynnt. Það hefur komið fram að þessi ákvörðun var lögleg en endurteknar fullyrðingar hafa verið um það í umræðum á Alþingi að hún hafi ekki verið það. Það er alveg sama þó að komið hafi fram álit hinna færustu manna um það, sí og æ er endurtekið að ákvörðunin hafi verið ólögleg.

Þessi ákvörðun var tekin eins og fram hefur komið að mig minnir 25. mars að morgni. Hún var kynnt þá en tekin skömmu áður. Þá stóð eins á og núna, hér stóð yfir kosningabarátta og ákvörðunin varð kosningamál á sínum tíma, við síðustu kosningar, og þingmenn voru úti um allt land í kosningabaráttu. Það kom í ljós síðar að forsendur ákvörðunarinnar voru byggðar á röngum upplýsingum um gereyðingarvopn og menn höfðu vissulega áhyggjur af því að gereyðingarvopn væru í höndunum á einræðisherra, sem Saddam Hussein óneitanlega var. Síðar kom í ljós að gereyðingarvopn fundust ekki. Af þessum ástæðum var ákvörðun íslenskra stjórnvalda röng og auðvitað hefði verið rétt að leggja málið fyrir utanríkisnefnd, kalla hana saman þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður, eins og við framsóknarmenn höfum ávallt sagt. Það hefði verið rétt að gera það.

Það var harðstjórn í Írak, um það var ekki deilt, og eins og ég sagði ríkti ótti við það að gereyðingarvopn væru í höndum þess harðstjóra sem þar ríkti. Þetta var staðan sem uppi var á þessum tíma. Svo er náttúrlega mjög gott að vera vitur eftir á þegar það er komið í ljós að þarna hafa ekki fundist nein gereyðingarvopn. En harðstjórnin var staðreynd, það hefur ekkert breyst.

Í fyrsta lagi var þetta mál þannig vaxið að leyfa lendingar og yfirflug á Keflavíkurflugvelli og í öðru lagi að leggja fé í uppbyggingu í Írak. Það skiptir mestu máli núna að leitast við að tryggja öryggi íröksku þjóðarinnar en núna er því öryggi ógnað af innanlandsátökum. Mikilvægasta verkefnið er að styðja Íraka við lýðræðisumbætur og endurreisnarstarf í landinu. Að því eigum við að snúa okkur af fullum krafti. Með því að taka þátt í því af fullum krafti getum við gert okkur gildandi á þessum vettvangi. Þetta uppbyggingar- og endurreisnarstarf er unnið í umboði Sameinuðu þjóðanna og íslensk stjórnvöld hafa stutt það starf heils hugar í orði og verki með tæplega 400 millj. kr. framlagi sem hefur farið mest í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann og stoðtækjafyrirtækið Össur.

Ég vil undirstrika að í þessu endurreisnarstarfi er mjög mikilvægt að við leggjum hönd á plóg til að stýra málum þannig að í framtíðinni, ef tekst að tryggja öryggi í Írak og koma á þar friði sem við vonum vissulega, ráði Írakar sjálfir yfir auðlindum sínum. Íslendingar eiga að tala fyrir því alls staðar sem því verður við komið. Það er óviðunandi að auðlindir Íraka fari í hendur annarra í þessu uppbyggingarstarfi.

Það er áfram ærið verk að vinna í Írak og erfiðleikarnir eru miklir en við megum þó ekki gleyma því að þar hafa orðið framfarir þrátt fyrir allt. Það hafa farið fram kosningar í Írak við afar erfiðar aðstæður með mikilli þátttöku svo dæmi sé tekið og við skulum ekki gleyma því í þeim hörmungum sem yfir þessa þjóð hafa dunið. Við skulum ekki heldur gleyma því að þjóðin bjó við harðstjórn og óöryggi áður en þessi hörmulegu átök dundu yfir hana.

Mér þykir satt að segja dálítið sérkennilegt að heyra upptalningu hv. 9. þm. Suðurk., Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þegar hann segir að það sé ekki gæfulegur félagsskapur og nefnir þar t.d. Lettland og Litháen, sem við höfum rækt vináttu við í mörg ár og heimsótt trekk í trekk og eru með okkur í alþjóðastarfi. Mér finnst þetta kaldar kveðjur til þessara þjóða og fleiri sem þarna eru taldar upp. (Gripið fram í.) Já, það getur vel verið að Rúanda sé ekki gæfulegur félagsskapur en mér finnst það samt nokkuð kaldar kveðjur til nágranna okkar í baltnesku löndunum að segja að þeir séu ekki gæfulegur félagsskapur.

Ég legg áherslu á uppbygginguna í Írak, ég legg áherslu á að þeirri uppbyggingu verði þannig háttað og því skipulagi sem þar kemst vonandi á að heimamenn ráði þar málum sínum, að heimamenn sjái um öryggismál (Forseti hringir.) í Írak og ráði yfir auðlindum sínum í framtíðinni og geti notað arðinn til þess að byggja landið upp.