133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski líta tvíþætt á þetta mál. Annars vegar taka stóra heildarsamhengið og spurninguna um aðildina að NATO og hvaða erindi við eigum inn í þetta allt saman yfir höfuð. Hins vegar má spyrja, jafnvel þótt Ísland sé í NATO en hafandi gengið í það með skýrum fyrirvörum 1979 um herleysi og vopnleysi, hvort það sé þá ekki samt og þrátt fyrir það algerlega ástæðulaust að fullgilda þessa samninga og eina ástæðan til þess þá sú að menn vilji endilega fá hingað heræfingar, vilji endilega fá hingað áfram erlenda hermenn. Það hefur einhvern veginn farið svoleiðis á sálina hjá þeim flokkum sem styðja þetta og hafa stutt hernámið alla tíð, að þeir geta voðalega illa hugsað sér framtíðina og tilveruna öðruvísi en að hér séu að minnsta kosti af og til erlendir hermenn. Það er bara eitthvað sem er þarna djúpt inni.

Ef það væri ekki, ef Ísland tilkynnti hinum aðildarríkjunum að við hefðum ekki áhuga á slíku og við ætluðum á grundvelli fyrirvaranna frá 1949 að vera laus við slíkt, þá spyr ég: Eru einhverjar þjóðréttarlegar skuldbindingar sem krefjast þess að við fullgildum þetta? Og í öðru lagi varðandi friðargæsluna, hæstv. ráðherra heldur því blákalt fram að það sé nú heldur betur búið að mýkja ásýnd hennar og hún sé borgaralegri. Er hún að verða borgaralegri með því að borið er fyrir okkur stjórnarfrumvarp þar sem ein réttlætingin er að koma íslensku friðargæslunni inn í NATO?

Ég er sammála því og það er gott að fjölga konum í verkefnum hjá íslenska ríkinu á erlendri grund ef það er til góðra verka. Mér finnst glæsilegt að íslenskar ljósmæður fari og sinni störfum þar sem þörf er fyrir slíkt. En eiga ljósmæður eitthvert erindi inn í NATO? Þurfa þær að fara inn í hernaðarskipulag til að geta starfað erlendis? Nei.