133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:44]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Ögmundur Jónasson er enn þá í umræðunum sem áttu sér stað hér fyrr í dag, en þá fór fram umræða um Írak. Ég vísa því á bug að Ísland sé einhver sérstök hreinsideild eins og hér var orðað. Við höfum og erum aðilar að NATO og við styðjum áfram þá stefnu að vera aðilar þar, því við teljum að mjög mikilvægt sé fyrir lítið ríki sem á ekki eigin herafla að vera í samstarfi sem eykur varnarmátt okkar. NATO er einmitt þess eðlis, slíkt samstarf eykur varnarmátt okkar geysilega mikið af því að árás á eitt ríki er árás á þau öll.

Samstarf okkar innan NATO hefur verið að okkar mati farsælt og þess vegna viljum við vera áfram í því og tryggja með því máli sem við erum að ræða hér um réttarstöðu bandalagsþjóða okkar þegar þær koma hingað til samstarfs við okkur ef við bjóðum þeim til slíks samstarfs.